152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í lögum um opinber fjármál á að kostnaðarmeta öll stjórnarfrumvörp sem koma til þingsins: Við erum að fara að gera þessar breytingar. Þær eru frábærar þó að þær kosti pínulítið af því að ábatinn af þeim til framtíðar verður rosalega mikill. Við erum að gera alls konar flottar skipulagsbreytingar og koma inn með tækni og gera nýja hluti, eins og var talað um hér, að við ættum ekki að vera hrædd við breytingar en samt má ekki breyta stjórnarskránni. Þetta er einmitt til þess að gera ákvörðun okkar sem erum með fjárveitingavaldið, að sýsla með almannafé, auðveldari um hvaða vegferð við ætlum að leggja í með því að samþykkja lög um aukin réttindi fólks, sem væntanlega fylgir alltaf kostnaður. Erum við að samþykkja tillögur sem gera eitthvað hagkvæmara og skilvirkara? Það er upplagið með þessu. Ég hef ekki hugmynd um það af því að ég veit ekki hvað þetta kostar og ég veit ekki hvaða ábata þetta er að fara að skila. Þá get ég ekki vegið og metið hvort það er aukinn kostnaður til langs tíma. Hér eru bara fleiri ráðuneyti og sílóin eru greinilega svo mikið vandamál að þau búa til alls konar hindranir sem ég myndi ætla að kostuðu eitthvað til lengri tíma. Eða er þetta einmitt skilvirknimál? Ég hef ekki hugmynd um það. Í fyrsta lagi af því að ég þekki ekki heildarkostnaðinn og í öðru lagi af því að ég þekki ekki ábatann sem á að vera, samkvæmt lögum um opinber fjármál, skylda stjórnvalda að upplýsa okkur um þegar þau leggja fram frumvörp á þingi. Það er aldrei gert. Ábatinn er aldrei sýndur, kostnaðurinn stundum — en hvaða áhrif það hefur í heildina á ríkissjóð til ábata eða langtímakostnaðar? Aldrei.