152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Án þess að heyra frekari rökstuðning fyrir þessu þá er ég bara sannfærður, ég tek undir þetta, þetta er dadaismi. Þessi tillaga er jafn mikill brandari hvort sem er. Annað dæmi um það hversu gríðarlega vel undirbúin þessi tillaga er — þetta er kaldhæðni — er m.a. að þarna er tilgreint háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, HIN-ráðuneytið. Þar segir, með leyfi forseta: „Nýtt ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar …“ Nú, ekki háskólarnir? Las ég þetta ekki rétt? Hérna kemur svo: „Stofnun nýs ráðuneytis háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarmála …“ Bíddu, var ekki sagt vísinda og iðnaðar? Ókei, það gleymdi einhver yfirlestrinum hérna. Við erum núna með hæstv. ráðherra vísinda, iðnaðar og nýsköpunar en hann verður greinilega ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Það hefur orðið einhver breyting þarna á og gleymst að laga það á öllum stöðum.

Þetta er enn eitt dæmið um það ásamt kostnaðarmatinu, sem þarf meiri undirbúning, hversu illa undirbúið málið er og illa að því staðið að öllu leyti. Allt frá því að þessir ósýnilegu múrar stofnanamenningarinnar, sem eru greinilega sýnilegir núna fyrst það er verið að reyna að breyta þeim, voru ekki eitthvað sem var verið að vekja athygli á á síðasta kjörtímabili og byrjað að undirbúa og fá Alþingi í lið með sér og segja: Þetta er fyrir okkur til þess að við getum gert æðislega hluti. Nei, nei, það var ekkert svoleiðis á síðasta kjörtímabili. En allt í einu er verið að reyna að gera þá sýnilega núna og það er gert með því að búa til fleiri veggi. Mjög sniðugt.