154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Mannréttindastofnun Íslands.

239. mál
[15:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í 1. tölulið 1. mgr. 13. gr. þingskapalaga segir að mannréttindamál heyri undir allsherjar- og menntamálanefnd. Hér er lagt til af hálfu forseta að vísa frumvarpinu um Mannréttindastofnun Íslands til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í stað þess að vísa málinu til þeirrar nefndar sem fjallar um mannréttindamál. Það er mikilvægt að Alþingi fylgi því skipulagi sem fjallað er um í þingskapalögum. Forsætisráðherra sagði sjálf í umræðu um þetta frumvarp í síðustu viku að þetta væri að sjálfsögðu mannréttindamál. Þetta frumvarp á heima í allsherjar- og menntamálanefnd líkt og önnur mannréttindamál. Þar af leiðandi segjum við í Flokki fólksins nei við þessari tillögu og gerum kröfu um að þetta mál fari í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég tala fyrir hönd hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar sem gat ekki verið hérna og við í Flokki fólksins styðjum það heils hugar að málið fari til allsherjar- og menntamálanefndar.