154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil líka taka undir að þetta er dálítið furðuleg umræða vegna þess að það er svolítið erfitt að tala um hvernig á að taka á þessu. En við skulum bara fara í þennan ímyndaða leik, að það sé búið að selja innviði og við eigum — hvað sagði hæstv. fjármálaráðherra? 120 milljarða eða eitthvað til að gera eitthvað í því að byggja upp innviði í heilbrigðiskerfinu. Það væri frábært. Hvað myndi ég gera? Hvar myndi ég byrja? Jú, á arðbærasta verkefninu sem til er. Við erum með á annað hundrað fatlaðra einstaklinga lokaða inni á hjúkrunarheimilum. Á sama tíma erum við með á annað hundrað eldri borgara lokaða inni á dýrasta úrræði sem til er, á sjúkrahúsi, sem kostar næstum því tug milljarða á ári. Bara það að gera eitthvað í þessu máli myndi leysa þennan svaka vanda. Það er líka sannað að þarna værum við ekki að gera eins og ríkisstjórnin gerir í dag en hún er að henda krónunni og spara aurinn. Þarna væri hún virkilega að gera eitthvað í því að reyna að stoppa líka þennan undarlega málflutning sem hefur verið um það að fatlað fólk sé svo kostnaðarsamt. Þau henda boltanum á milli sín, hæstv. fjármálaráðherra og Reykjavíkurborg, um þennan kostnað, sem er eiginlega stórfurðulegt vegna þess að þetta er bara mannréttindamál sem á ekki að vera undir því komið. Það á bara að vera fjármagn til þess eins og alls annars.

Það er margt annað sem við gætum sett þessa fjármuni í. Það þarf t.d. að stórhækka alla styrki í almannatryggingakerfinu sem hafa sumir ekki hækkað áratugum saman. Við eigum að taka það kerfi og henda því og endurskoða það. Við gætum notað hluta af þessum peningum strax til að gera eitthvað af viti þar sem myndi skila sér margfalt til samfélagsins. En því miður, þetta (Forseti hringir.) eru peningar í skógi, ekki í hendi.