154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Sterkir innviðir, eins og flutningsmaður talar um, með leyfi forseta: „Grunninnviðir eru samgöngu-, orku- og fjarskiptainnviðir.“ Ég held að þeir séu nú mun fleiri. Það er mjög áhugavert að heyra þetta talið upp sem grunninnviði, sérstaklega þegar fyrir nokkrum árum voru seldir ákveðnir grunninnviðir; grunnnet Landssímans, sem var sagt að væri ekki hægt að selja, það væri óaðskiljanlegt frá sölu Símans, o.s.frv. Áhugavert.

„Ríkið er versti landeigandinn.“ Það er að sjálfsögðu Sjálfstæðisflokkurinn sem er hérna versti landeigandinn. Það er mjög áhugavert að sjá einmitt þessa umræðu þar sem þingmaður ríkisstjórnarflokks er í sérstakri umræðu við ráðherra sama ríkisstjórnarflokks. Það er pínu undarlegt á heildina litið. Þetta er einhvers konar kosningabarátta, ég veit það ekki.

Við erum samt að tala um áhugavert mál sem við verðum að skoða gaumgæfilega. Það er vissulega tal um arðbærni hérna en hún er tvenns konar. Þegar kemur að stöðu ríkisins skiptir samfélagsleg arðbærni mjög miklu máli, ekki bara bókhaldsleg arðbærni, eins og að losa um fé o.s.frv., við þurfum að pæla í samfélagslegum ábata. Það saman, samfélagslegur ábati og bókhaldslegur ábati, er efnahagur landsins í heild sinni. Ríkið ber ábyrgð á samfélagslega hlutanum og þar vantar einmitt rosalega mikið að tala nánar um atriði eins og innviðaskuldina og þjónustuskuldina þar sem við erum ekki að standa okkur nægilega vel. Hver ástæðan er fyrir því að þau verkefni eru ekki fjármögnuð og af hverju við lendum í viðhaldsskuld eru mjög mikilvægar spurningar en ég held að við þurfum mun dýpri og lengri umræðu til þess að svara því af hverju við höfum lent í þeirri skuld í staðinn fyrir bara þessa peningalegu skuld sem er alltaf talað um, (Forseti hringir.) hversu miklir vextirnir eru sem ríkið er að borga. Það eru vextir af þessari innviðaskuld og þjónustuskuld líka. Það eru biðlistar og það er fátækt.