154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:36]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Það er lykilatriði þegar kemur að sölu ríkiseigna að vandað sé til verka. Það er vel þekkt að hér erum við í töluverðri innviðaskuld og því ekki furða að við freistumst til að grípa til þess að selja ríkiseigur til að fjármagna þá nauðsynlegu uppbyggingu sem svo sannarlega er ekki vanþörf á. Við verðum hins vegar að gæta okkar. Það eru allt of mörg dæmi þar sem ekki er vandað til verka við sölu á ríkiseignum, þar sem eignir ríkisins eru seldar í ógagnsæju ferli, oft á allt of lágu verði. Það verður að gæta að því að við öll sitjum við sama borð þegar við seljum eigur ríkisins. Það er nefnilega að miklu leyti áskorunin. Við megum ekki flýta okkur og við verðum að vanda okkur. Ef við erum að grípa til þess að selja ríkiseigur til að fjármagna innviði, sem er mögulega alveg réttlætanlegt, þá er eins gott að við fáum rétt verð fyrir þær eignir. Þess utan megum við aldrei leyfa okkur að selja þessar eignir án þess að ferlið við söluna sé gagnsætt og farið sé að leikreglum. Það verður líka að horfa til þess hvort verið sé að selja fyrirtæki sem starfa á fákeppnismarkaði. Það getur verið stórskaðlegt að passa okkur ekki á fákeppni því að hún leiðir oft til hærra verðs og með verðbólgu í hæstu hæðum megum við ekki við því. Hér stefnir líka hraðbyri í fákeppni á húsnæðismarkaði. Það er líka lykilatriði hvaða innviði við erum að byggja upp. Það getur verið varhugavert að selja eina innviði til að fjármagna aðra. Tilgangurinn má ekki helga meðalið.