154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:38]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera áhugavert að hlusta á þessa umræðu og gagnlegt að fá hér ólík sjónarmið fram. Mig langar að nýta mínar tvær mínútur í að fjalla aðeins um það sem mér finnst svo oft verða einhvern veginn undir í umræðunni og það er að við getum aldrei horft til ákveðinnar grunnþjónustu í þessu landi með einhverja arðsemiskröfu á bakinu. Það að þjónusta íbúa í grundvallaratriðum alls staðar á landinu verður líklega aldrei til þess fallið að einhver sé að fara að græða á því peninga. Það mun kosta peninga. Ef við horfum til þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem hafa verið nefnd hér í umræðunni í dag og farið hefur verið í sölu á og einkareksturinn tekið yfir má sjá rauðan þráð af lakari þjónustu við íbúa landsins. Fólk hefur minni tök á því að sækja þjónustu í sínu nærsamfélagi. Því ætlaði ég að benda á byggðavinkilinn í þessu þegar kemur að hinni ýmsu þjónustu.

Annað er það, eins og hefur svo sem komið fram í umræðunni, að ef það er svo sameiginlegt mat okkar hér að einhverjar eignir ríkisins eigi að selja þarf það auðvitað að vera hafið yfir allan vafa hvernig er að því staðið og hvernig við ætlum að gera það. Þess vegna hef ég sagt að ekkert verði selt í Íslandsbanka fyrr en búið er að koma algjörlega á framfæri því að aðferðafræðin sé í lagi. Ég hef líka lagt það til að Landsbankann eigi ekki að selja. Og það höfum við sagt í VG.

Að lokum ítreka ég (Forseti hringir.) að mikilvægir innviðir eiga að vera í eigu ríkisins til að tryggja þjónustu við almenna borgara (Forseti hringir.) en ekki til að selja þá einstaklingum úti í bæ.