132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:44]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverð umræða sem hér fer fram. Þetta er umræða um hina sögulegu sáttargjörð sem talið var að tiltekin nefnd sem var skipuð af hæstv. menntamálaráðherra hefði komist að niðurstöðu um. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar allra flokka, m.a. a.m.k. tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Það er merkilegt þegar verið er að leita að sátt í jafnstóru máli, máli sem hefur skekið samfélagið um langt skeið og verið var að leita að niðurstöðu í, ef nú á að hlaupast undan merkjum, ef Sjálfstæðisflokkurinn, þ.e. flokkurinn sem skipaði nefndina, flokkurinn sem hafði frumkvæði að því að koma þessari nefnd á laggirnar, ætlar við þessar aðstæður að hlaupast undan merkjum. Það eru athyglisverð skilaboð, skilaboð líka til stjórnarandstöðunnar þegar verið er að óska eftir samstarfi, ef sameiginleg niðurstaða er ekki virt lengur en það hentar.

Það er rétt sem hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan. Auðvitað eru það fyrst og fremst áhrif verðandi seðlabankastjóra, fyrrverandi formanns flokksins, sem gera það að verkum að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherrar, koma núna með gjörbreytta afstöðu frá því sem var fyrir viku. Þetta er mjög athyglisvert.

Ég vil um leið lýsa velþóknun minni á því að hæstv. forsætisráðherra virðist ekki hafa vikið af þeirri línu sem gefin var og sættir náðust um í vor. Ég lýsi sérstakri ánægju með það og það hefur komið skýrt fram í þessari umræðu að hæstv. forsætisráðherra er ekki á hlaupum eftir viðhorfum upprennandi seðlabankastjóra.