132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Staða útflutningsgreina.

[14:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það voru mjög einkennilegar ályktanir sem hv. þingmaður dró upp í ræðu sinni í þá veru að ríkisstjórnin gerði ekki neitt. Verulegt aðhald hefur verið í ríkisfjármálum á undanförnum árum og hefur sennilega aldrei verið meira en er á þessu ári þó að hv. þingmenn sumir hverjir hafi ekki tekið eftir því (Gripið fram í.) og það er fyrirsjáanlegt að það aðhald verður viðvarandi á næsta ári.

Það sem auðvitað er erfiðast fyrir útflutningsgreinarnar er staða gengisins vegna hárra vaxta hjá Seðlabankanum. Hins vegar ber öllum saman um það sem um þetta hafa spáð að gengið muni breytast á næsta ári og gengisvísitalan muni hækka og þar með muni hagur útflutningsgreinanna vænkast. Það er bæði spá fjármálaráðuneytisins og spá greiningardeildanna að gengið muni verða á bilinu 114–115 á næsta ári, sem er talsvert hærra en það er í dag. Því er líka spáð hjá fjármálaráðuneytinu að vextir Seðlabankans muni lækka á næsta ári, fara úr því að vera 10,25 eins og það er núna í dag í að vera að meðaltali 9,9 á næsta ári. Þetta er í takt við það sem gert er ráð fyrir, þ.e. að framkvæmdir við stóriðju muni dragast saman og ljúka í lok næsta og byrjun þarnæsta árs og þá muni hagvöxtur minnka. Því er fyrirsjáanlegt að hagur útflutningsgreinanna mun vænkast á næstu missirum og verða miklum mun sterkari. Og þegar við erum komin í gegnum þetta mikla umbreytingaskeið við það að taka í notkun nýtt orkuver og nýtt álver verður hagkerfið miklu sterkara og þjóðin mun hafa það miklu betra.