138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[14:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir svör hennar um fyrningu aflaheimilda. Eins og ég skildi þau er hún að segja að stjórnarsáttmálinn standi, það standi sem sagt til að hefja fyrningu aflaheimilda frá og með þá 1. september 2010.

Hún talaði líka um nefnd sem var skipuð ýmsum hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum úr nánast öllum flokkum. Í skipunarbréfi nefndarinnar er ekki vikið einu orði að fyrningu aflaheimilda. Það er talað um að skilgreina helstu álitaefni sem eru fyrir hendi í löggjöfinni og lýsa þeim, vinna nauðsynlegar greiningar og setja að lokum fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að í greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnina meðal þjóðarinnar. Ég sé ekki að með einu orði sé nefnt það sem er talað um í stjórnarsáttmálanum, áætlun um innköllun og endurráðstöfun aflaheimildanna.

Ég gat því miður ekki heldur heyrt á svari hv. þingmanns hvort menn hafi gert sér grein fyrir því þegar þeir keyptu lánasafn Landsbankans fyrir um 325 milljarða að til stæði að fyrna aflaheimildir. Var gert ráð fyrir því þegar við keyptum þetta lánasafn núna á 325 milljarða? Áttum við ekki að fá 90% í framhaldi af þeim samningi upp í Icesave? Á sama tíma koma fram tillögur á vegum ríkisstjórnarinnar sem munu gera það að verkum að Landsbankinn getur hugsanlega farið á hliðina, þ.e. Nýi Landsbankinn. Eins og hv. þingmaður ætti að kannast vel við er talað um að heildarskuldir sjávarútvegsins séu einhvers staðar í kringum 400 milljarða og ef Landsbankinn er með helminginn af þeim skuldum (Forseti hringir.) erum við að tala um umtalsverðar eignir sem eru þarna undir.