138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

56. mál
[17:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, á þingskjali 56, mál nr. 56.

Núgildandi lög tóku gildi um mitt ár 2006, en með þeim voru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 60/2005/EB. Samhliða féllu úr gildi eldri lög um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993. Núgildandi lögum nr. 64/2006 var breytt á vorþingi 2008, samanber lög nr. 77/2008. Breytingarnar sem þá voru gerðar á lögunum tóku mið af athugasemdum sem hinn alþjóðlegi starfshópur FATF, en það er skammstöfun fyrir Financial Action Task Force on Measures against Money Laundering and Terrorist Financing, sem lauslega mætti þýða sem starfshópur um aðgerðir í fjármálakerfinu gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, gerði við íslenskt regluverk á þessu sviði í úttekt sinni árið 2006. Ísland hefur verið aðili að FATF frá árinu 1991, en starfshópurinn vinnur að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hafa ríki sem tekið hafa þátt í starfi FATF verið í fararbroddi þjóða á þessu sviði. Á alþjóðavettvangi hefur í ríkum mæli verið litið til starfsemi FATF og hún verið leiðandi, t.d. hafa tilskipanir Evrópusambandsins um peningaþvætti verið til samræmis við tilmæli FATF. Skömmu eftir að frumvarpið, sem varð að lögum nr. 77/2008, hafði verið samþykkt sem lög af Alþingi vorið 2008, bárust íslenskum stjórnvöldum athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, vegna atriða er varða innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 60/2005/EB, sem líkt og fyrr segir var innleidd með lögum nr. 64/2006. Frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við athugasemdir ESA.

Frumvarpið hefur verið unnið með aðkomu ráðgjafarnefndar skipaðri af viðskiptaráðherra, en nefndin hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd aðgerða gegn peningaþvætti hér á landi, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni tengd peningaþvætti. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar úr dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, ásamt fulltrúum frá embætti ríkislögreglustjóra, Félagi fasteignasala, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Ekki er um að ræða verulegar efnislegar breytingar á gildandi lögum heldur er fyrst og fremst leitast við að samræma lögin enn frekar áðurnefndri tilskipun Evrópusambandsins og koma þannig til móts við athugasemdir ESA, sem voru m.a. eftirfarandi:

1. Þrátt fyrir ákvæði III. kafla laganna um auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika um upplýsingamann þegar um er að ræða fjarsölu, millibankaviðskipti, einstaklinga í áhættuhópi, eða millibankaviðskipti við lánastofnun án raunverulegrar starfsemi, þá skorti í lögin almennt ákvæði þess efnis að tilkynningarskyldir aðilar skuli gera auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamann þegar aðstæður eru í eðli sínu þannig að aukin hætta sé samkvæmt áhættumati á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.

2. Tilskipunin heimili ekki tilkynningarskyldum aðila að undanþiggja lífeyrissjóði könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn, enda séu þeir, þ.e. lífeyrissjóðirnir, hvorki skilgreindir sem lánastofnanir né fjármálafyrirtæki.

3. Að ekki hafi verið innleitt með fullnægjandi hætti ákvæði tilskipunarinnar sem banni tilkynningarskyldum aðila að miðla upplýsingum til einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði, sem ekki hafa sambærilegar reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögin mæla fyrir um, hafi framkvæmdastjórnin tekið ákvörðun um slíkt bann. Í frumvarpinu er gerð tillaga um heimild ráðherra til að innleiða slíkar ákvarðanir með setningu reglugerðar.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að lýsa frumvarpinu frekar efnislega, en að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.