138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hv. þingmanns varðandi hvaða leiðir eru mögulega færar í byggingu orkumannvirkja og þeirra sem nýta orkuna. Við skulum leggja áherslu á það því að ég held að enginn hér inni sé reiðubúinn að setja auðlindina sjálfa að veði í þessu öllu saman.

Það er ánægjulegt að heyra það ef búið er að koma málum þannig fyrir að þessi títtnefndi orkuskattur muni ekki hafa áhrif á þá fjárfestingarsamninga sem verið er að gera. Ég vona svo sannarlega að svo sé, því að það væri mjög bagalegt ef það væri.

Ég get ekki sleppt því að nefna að vitanlega er það mjög sérkennilegt af hálfu ríkisstjórnar að setja fram óútfærðan skatt með þessum hætti og hleypa öllu í bál og brand akkúrat þegar við þurfum á sem mestum stöðugleika að halda. Það skýrir líka það óvissuálag sem nefnt var hér á lánamöguleikum.