138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að ástandið sem er í þjóðfélaginu er svo fordæmalaust og viðkvæmt að allt sem er gert hefur miklu meiri áhrif en í venjulegu árferði. Þess vegna, eins og ég sagði, olli það truflun og uppnámi og deilum þegar komu fram hugmyndir um orkuskatt sem var ekki búið að útfæra, það liggur alveg ljóst fyrir hvað það einstaka verkefni varðar.

Það sem mínar upplýsingar hafa sagt mér um fjárfestingarsamninginn t.d. við Verne Holdings, þá hefur hann verið á algjöru lokastigi núna í nokkra daga. Það snýr ekkert að þessum fyrirhugaða orkuskatti heldur eingöngu út af tækjabúnaði frá IBM, sem er í meira mæli en áður átti að vera, og einhverjum virðisaukaskattsmálum honum tengdum, ekki orkuskattinum. Það lítur því bara mjög vel út. Það er stórt og mikið gagnaver sem notar mikla orku. Svo fyrirhugar Greenstone að byggja orkuver á Blönduósi, er hætt við að byggja það sem þeir ætluðu út af öðrum ástæðum o.s.frv., þannig að það er mjög margt sem er í farvatninu hjá okkur.