138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi ekki taka undir með hv. þingmanni um að greinargerðin með þessari ágætu tillögu væri hápólitísk og ofsafengin, en ég er alveg reiðubúin til þess að fara í einhverjar orðalagsbreytingar á greinargerðinni ef hv. þingmaður gæti þá fallist á tillöguna. Ég tel að sú nefnd sem fær þessa tillögu til umfjöllunar geti unnið að því ef orðalag tillögunnar sjálfrar breytist ekki, sem er að draga til baka ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra. Ef við deilum þeirri skoðun getum við bara að unnið að hinu í sameiningu og ég treysti á stuðning hv. þingmanns með það.

Varðandi þessi hápólitísku atriði sem hann ber á okkur að vera að nefna hér veit ég ekki betur en bæði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins hafi notað nákvæmlega þau sömu orð, um að stöðugleikasáttmálinn sé í uppnámi, að hann hafi verið þverbrotinn, Samtök iðnaðarins og öll þau samtök sem voru á borgarafundinum (Forseti hringir.) sem við vorum á um daginn. Þá er hv. þingmaður að segja að þau orð og viðbrögð hafi verið hápólitísk og ofsafengin. Ég get ekki tekið undir það.