138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er algerlega ósammála því að þetta sé eitthvert minni háttar mál sem hafi engar afleiðingar á það hvernig erlendir fjárfestar líta til landsins. Þetta er ekki einstakt tilvik.

Það sem hefur verið að gerast varðandi skipulagsmálin, það sem hefur verið að gerast varðandi skattamálin, þetta spilar allt inn í það hvernig erlendir fjárfestar sjá landið okkar og þetta er gríðarlega alvarlegur hlutur. Stærsta hlutverk íslenskra stjórnvalda í dag er að byggja upp traust. Hvernig byggir maður upp traust? Með því að standa við orð sín, meðal annars það sem segir í stöðugleikasáttmálanum, með því að fella ekki úr gildi gildar ákvarðanir sem teknar hafa verið á fyrri stigum, með því að fara að stjórnsýslulögum en leika ekki þann hráskinnaleik að skýla sér bak við góða stjórnsýsluhætti þegar þveröfugir stjórnsýsluhættir eru viðhafðir. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál og kemur til með að hafa þvingandi og neikvæðar afleiðingar á það hvernig okkur tekst að byggja upp og laða að erlenda fjárfestingu. Því vil ég, hæstv. forseti, að hv. þingmaður upplýsi mig um það hvers vegna hann telji þetta ekki hafa áhrif.