140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aftur vegna þess að tíminn dugði ekki áðan og mig langaði að fjalla meira um þessi mál vegna þess að þetta er klárlega sá málaflokkur sem mestu skiptir núna.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir að fara vel yfir sóknarfæri í landbúnaði. Það sem ég átti eftir að koma inn á er nokkuð sem er mér hulin ráðgáta. Ég átti samtal ekki alls fyrir löngu við mann sem þekkir vel til í Þýskalandi, starfaði þar innan lista- og menningargeirans. Hann sagði að innan lista- og menningargeirans í Þýskalandi væru menn mjög meðvitaðir um að mikilvægt væri að grunnatvinnugrein landsins, iðnaður og það sem skapaði raunveruleg útflutningsverðmæti, væri sterk vegna þess að þegar hún væri sterk væru kvikmyndagerð, listin, menningin og tónlistin sterkari en ella.

Það sem þarf að nást núna í íslensku samfélagi er einfaldlega sátt um að sækja fram á öllum sviðum atvinnulífsins. Það er gríðarlega mikilvægt innan sjávarútvegsins að við sækjum þar fram og nýtum auðlindina til tekjuöflunar, nýtum hana eins og við getum. Það er eins innan landbúnaðarins, þar sækjum við fram. Innan iðnaðarins sækjum við fram og þetta þarf að vera unnið í sátt við þessar atvinnugreinar og sótt fram á þessum sviðum. Ef það er gert er hægt að sækja fram þegar kemur að lista- og menningargeiranum, m.a. kvikmyndageiranum. Þessar atvinnugreinar hafa í allt of miklum mæli verið í stríði á Íslandi. Innan kvikmyndageirans þykir til að mynda enginn maður með mönnum nema hann ráðist á grunnatvinnugreinarnar. Svo þegar menn eru komnir út í sveitir landsins eða sjávarplássin er enginn maður með mönnum nema hann ráðist á kvikmyndageirann og menningarheiminn. Þessar greinar eiga að vinna saman og í aukinni sátt.

Það jákvæða við þessar tillögur finnst mér einmitt að þær og þessi þingsályktunartillaga gera ráð fyrir því að þessar um margt ólíku atvinnugreinar sæki fram saman og nýti þá styrkleika og þau sóknarfæri sem eru fyrir hendi. Við heyrðum fyrr í dag í umræðunni að hv. þingmenn Samfylkingarinnar mærðu þessar tillögur einmitt vegna þess að í þeim eru þættir sem þeim hugnast og snúa að kvikmyndagerð og öðru því um líku, en þeir urðu að nota tækifærið til að ráðast á grunnatvinnugreinarnar sem skapa hér gjaldeyrinn. Það góða við þessar tillögur er að greinarnar eru settar saman í eitt plagg og yfirskriftin gæti verið að þetta sé leiðin í því að menn geti sótt fram í sameiningu og nýtt saman þá styrkleika og þá möguleika sem þjóðin hefur. Íslenskt samfélag nær sér aldrei á skrið nema við förum að hugsa svona, allir sem einn, hvort sem það er listaheimurinn, bókaheimurinn, rithöfundar, kvikmyndagerðarmenn eða aðrir því um líkir, hvernig við getum sótt fram, hvernig við getum aukið umsvif okkar og framleiðslu.

Hvað hefðu til að mynda kvikmyndagerðarmenn sagt við þeirri umræðu ef sjómenn og bændur hefðu farið að tala um að það væri skelfilegt að verið væri að sýna íslenska kvikmynd í kvikmyndahúsum erlendis vegna þess að þá værum við að niðurgreiða kvikmyndir fyrir útlendinga? Það hefði nú eitthvað heyrst ef sú umræða hefði sprottið upp. (Gripið fram í.) Svona var umræðan um grunnatvinnugreinarnar, sagt að það væri verið að niðurgreiða kjöt fyrir útlendinga vegna þess að það væri verið að styðja við innlenda framleiðslu.

Við megum ekki hugsa svona. Við megum ekki ráðast þvers og kruss atvinnugreina á milli vegna þess að við erum öll í sama bátnum. Þetta snýst allt um það eitt að auka fjárfestingar á Íslandi, að fyrirtækin sæki fram og það á við í öllum greinum, hvort sem er í grunnatvinnugreinunum eða þessum afleiddu greinum. Ég kalla eftir því við vinnslu þessa máls að menn fókuseri á það hvernig þetta megi verða og þá er ég sannfærður um að við munum fyrr en seinna ná að stöðva þann fólksflótta sem er frá landinu og ég kom inn á (Forseti hringir.) í fyrri ræðu minni og er grafalvarlegt mál.