142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Það er nú fyrst til að taka að þessi breyting á virðisaukaskatti á hótel- og gistiþjónustu í landinu var hluti forsendna fjárlaga fyrir árið 2013 og liður í tekjuöflun til þess bæði að ná áfanga í að draga úr hallarekstri ríkissjóðs á yfirstandandi ári og leggja grunn að tekjuöflun ríkissjóðs í ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma. Þetta var hluti af stærri aðgerðum sem samtals voru upp undir 10 milljarðar kr. á tekjuöflunarhlið og umtalsverðar ráðstafanir á hina hliðina til að draga úr útgjöldum í anda þess sem gert hefur verið við undirbúning fjárlaga hvert einasta ár undanfarin fjögur ár. Þannig hafa menn smátt og smátt í áföngum minnkað hallarekstur ríkissjóðs með því að afla tekna og draga úr kostnaði eins og kostur er.

Að vandlega yfirveguðu ráði var borið niður á þessum stað og fyrir því voru nokkrar góðar ástæður, m.a. þær að greinin stendur sterkt og nýtur góðs af hagstæðu gengi. Vöxtur og viðgangur er mikill. Skattþrepið sem þarna er á ferðinni er óvenjulega lágt og stingur í augu þegar skattalegt umhverfi atvinnulífsins er borið saman. Því má loks við bæta að það að hækka nokkuð virðisaukaskatt á gistingu, sem að uppistöðu til er borinn af erlendum ferðamönnum, hefur hverfandi verðlagsáhrif, hefur lítil áhrif á innlent verðlag því að það vegur ekki þungt í körfu innlendra neytenda. Margt mælti með því að þarna væri, ásamt með nokkrum öðrum ráðstöfunum, svigrúm til að afla nokkurra tekna.

Lagt var upp með að færa gistinguna í almennt þrep, m.a. með vísan til þess sem hér hefur komið fram, að að sjálfsögðu er einfaldara að hafa tvö þrep í virðisaukaskatti en þrjú, en eftir allmikið þóf og mikla fundi og samráð við greinina varð niðurstaðan sú að draga verulega í land í þessum efnum, fara með skatthlutfallið niður í 14% og seinka gildistökunni um allmarga mánuði í viðbót. Í staðinn fyrir 25,5%, sem átti að taka gildi í maímánuði sl., samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eins og það kom fram, varð niðurstaðan að lokum 14% frá og með 1. september nk. Það var gefinn mjög ríflegur aðlögunartími að þessari breytingu. Hún er það óveruleg að enginn mannlegur máttur fær mig til að trúa því að heilt ár hafi ekki dugað ferðaþjónustunni til að búa sig undir hana. Það stendur líka þannig af sér varðandi sölutímann að nýtt sölutímabil hefst almennt á haustin og ferðakaupstefnur, eins og til dæmis Vestnorden, eru á haustin þannig að það stendur vel af sér að miða við þessa tímasetningu. Þetta er nú ljóst, og nauðsynlegt að menn hafi í huga að það var dregið verulega í land með þessa áformuðu gjaldtöku og veittur ríflegri aðlögunartími að henni.

Eftir sem áður er þetta umtalsverður tekjupóstur sem þarna átti að leggja og ekki bara í fjárlögum yfirstandandi árs. Áætlunin var og er frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að það að falla frá þessum áformum nú þýði 535 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð á þessu ári, á mannamáli 535 millj. kr. gat í viðbót, aukinn hallarekstur ríkissjóðs. Ekki er stafkrók um það að finna nokkurs staðar frá hæstv. ríkisstjórn hvað hún ætli að gera í staðinn, að einhverjar mótvægisaðgerðir komi í staðinn.

Ég hef þó ekki síður áhyggjur af því að þarna hverfur út tekjupóstur upp á 1,5–1,8 milljarða að mínu mati árlega það sem eftir lifir ríkisfjármálaáætlunar til meðallangs tíma á ári hverju fram til 2015. Það munar um það þegar það leggst saman. Eins og ég segi hefur ríkisstjórnin ekki gert neinar ráðstafanir eða sýnt á nein spil hvað varðar það að mæta þessu og í kostnaðarumsögninni, sem viðkomandi skrifstofa fjármálaráðuneytisins má eiga hrós fyrir að er fullkomlega í karakter þeirrar góðu skrifstofu, er rækilega bent á það að þetta þyngi fyrir fæti hvað varðar markmiðin um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Það er það sem hér er undir, að ríkissjóður er enn rekinn með halla, blessunarlega að vísu til muna minni en áður var þannig að það er meira en stærðargráðu minni halli. Engu að síður eru tapaðar tekjur eða aukin útgjöld ávísun á meiri lántökur ríkissjóðs, meiri skuldir og þar með meiri vaxtagreiðslur á komandi árum. Þannig er það.

Tekjutap upp á um það bil 2 milljarða á þessu ári og hinu næsta væri kannski eitt og sér og einangrað ekki ástæða til þess að fara verulega á taugum yfir því ef það væri einangrað fyrirbæri en þannig er það ekki, því miður. Á borðum okkar þingmanna er annað frumvarp frá hæstv. ríkisstjórn sem felur í sér stórfellda lækkun á veiðigjöldum og þar erum við að tala um 10 milljarða samtals á þessu ári og hinu næsta, ekki frá því sem veiðigjöldin gætu gefið að gildandi lögum miðað við afkomu sjávarútvegsins heldur frá þeirri hógværu áætlun sem var færð inn í forsendur ríkisfjármálaáætlunar. Það vantar 10 milljarða upp á hana til að endar náist þá saman. Í tveimur fyrstu frumvörpunum frá ríkisstjórn er sem sagt 12 milljarða gat í afkomu ríkissjóðs á þessu ári og hinu næsta. Það munar um það. Það vekur verulegar áhyggjur og auðvitað ekki síst spurningar um það hvort hæstv. ríkisstjórn sé þegar búin að ákveða að gefast upp við markmiðið um hallalaus fjárlög á árinu 2014. Það er stóra spurningin sem hér er undir. Það verður okkur verulega dýrt. Það verður mikið bakslag í þá efnahagsáætlun sem Ísland hefur unnið eftir og hefur frá miðju ári 2011 gengið út á það að ná hallalausum fjárlögum og lítils háttar afgangi á heildarjöfnuði árið 2014. Það hefur verið unnið samkvæmt því í á þriðja ár.

Það er með stuttum aðdraganda sem það mundi þá gerast ef ríkisstjórnin gæfist upp við það með fjárlagafrumvarpi sem kæmi fram svo seint sem í haust. Sú staðreynd verður ekki falin og menn hafa fátt til að undirbyggja og rökstyðja að slíkur undansláttur sé skynsamlegur fyrir Ísland, sérstaklega ekki þeir hinir sömu menn sem hafa miklar áhyggjur af miklum skuldum og háum vaxtagreiðslum.

Þar koma við sögu hlutir eins og lánshæfismat landsins. Lánshæfismatsfyrirtækin, hvað sem menn gefa nú fyrir þau, hafa verið afar skýr í umsögnum sínum um Ísland að undanförnu, þetta er einn af stóru mælunum sem þau horfa á varðandi trúverðugleika efnahagsstefnunnar, þ.e. að haldið verði við það að ná hallalausum fjárlögum 2014. Þar á bak við liggur að sjálfsögðu að greiðari aðgangur opnist fyrir banka og stærri fyrirtæki á alþjóðlegan fjármálamarkað, en samkvæmt því hefur líka verið unnið í á þriðja ár að í kjölfar þess að ríkinu opnaðist aðgangur að erlendum fjármálamörkuðum með útgáfu í júní 2011 og aftur 2012 og með batnandi lánshæfismati, minnkandi áhættuálagi eða skuldatryggingarálagi á Ísland mundi gatan fara að greiðast fyrir aðra aðila að komast í eðlilegt ástand að þessu leyti. Þetta er ekki bara þröngt hagsmunamál ríkissjóðs, þó að það sé það í fyrstu umferð, heldur er þetta líka spurning um trúverðugleika efnahagsstefnunnar og þetta getur varðað aðra aðila, atvinnulífið og skulduga íslenska aðila, miklu hvað varðar aðgang að erlendum fjármálamörkuðum, möguleika á að endurfjármagna lán sín og það á skikkanlegum kjörum. Sveitarfélög, orkufyrirtæki, stór útflutningsfyrirtæki og aðrir slíkir aðilar eiga mikið undir því að við förum ekki út af sporinu í þessum efnum.

Þarna virðist því miður hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn sem henni veita brautargengi fara ansi ógæfulega af stað, svo ekki sé meira sagt. Nú vitum við ekki hvort meira er í pípunum á þessu sumarþingi, þ.e. í formi þess að frumvörp um aukin útgjöld eða enn þá meira afsal tekna eigi eftir að koma fram. Það er boðað í stefnuræðu forsætisráðherra að frekari skattalækkanir séu í skoðun, gott ef ekki nefnt þar bensíngjald, þungaskattur, kolefnisgjöld og auðlindagjöld, á sama tíma og forkólfar hæstv. ríkisstjórnar tala mikið um áhyggjur sínar af því að það sé þyngra fyrir fæti í ríkisfjármálum en þeir hafi átt von á. Þess þá heldur, mundi maður segja, er ástæða til að fara varlega gagnvart því að setja tekjur í stórum stíl fyrir borð.

Þessar tvær greinar, sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan, sem hér eiga að njóta sérstaklega örlætis ríkisstjórnarinnar á undan öllum öðrum, á undan almenningi, öldruðum og öryrkjum eða hverjum það nú væri, hvað þá skuldugum íbúðareigendum sem eiga nú að bíða haustsins ef ekki fram á næsta ár, standa báðar mjög sterkt. Þær hafa notið mjög góðs af afar hagstæðri gengisskráningu krónunnar, ferðaþjónustan hefur fengið mikla kynningu og hið opinbera hefur lagt mikla fjármuni í uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar og í markaðssetningu á Íslandi. Á sama tíma og hér var hugsunin sú að ferðaþjónustan legði aðeins meira af mörkum í sameiginlega sjóði ver ríkið miklum skatttekjum í uppbyggingu í þessari grein. Það er fullkomlega réttlætanlegt, og af því er ég að minnsta kosti stoltur að við höfum brotið algjörlega í blað hvað það snertir, að nú er verið að takast á við það að byggja upp aðstöðuna í landinu á fjölsóttum ferðamannastöðum, í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum og setja umtalsverða fjármuni ár eftir ár í velheppnað markaðsátak með greininni. En er þá ekki sjónarmið út af fyrir sig að greinin á móti greiði skatta sem eru eitthvað nær því sem almennt atvinnulíf gerir?

Hv. þm. Pétur Blöndal hafði áhyggjur af samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar og eitthvað er fjallað um það í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, gott ef ekki skoðanasystkina þeirra í meiri hluta atvinnuveganefndar líka, en samt fór drjúgur hluti ræðu hv. þm. Péturs Blöndals í að velta vöngum yfir því hvernig við ættum að ráða við þann óskaplega fjölda sem hingað streymdi og hvar við fengjum mannskap til að vinna í þessu. Það er dálítið mótsagnakennt, annars vegar að hafa áhyggjur af því að gistingin geti ekki borið 14% virðisaukaskatt en hins vegar að vöxturinn sé svo gríðarlegur að þetta sé alveg að drekkja okkur, 100 þús. erlendir ferðamenn í viðbót núna tvö ár í röð.

Það er rétt, þetta er einhver mest glimrandi uppgangur sem ein atvinnugrein hefur búið við enda skilyrðin mjög hagstæð og búið að leggja heilmikið í þá fjárfestingu að kynna Ísland og koma því á kortið. Hvernig stóð þá á því, ef þessi rök halda, að ferðaþjónustan koðnaði ekki niður árin fyrir 2007? Hvernig var ástandið þá? Virðisaukaskatturinn var 14% og raungengi krónunnar upp í 30–40% hærra en það er í dag. Samt var vöxtur í ferðaþjónustu árin frá aldamótunum og fram að hruni. Ísland var vissulega þekkt fyrir að vera dýrt land en það breytti ekki hinu, að vaxandi fjöldi ferðamanna og fleiri og fleiri skemmtiferðaskip komu hér ár eftir ár eftir ár. Var þá verðlagið, mælt í kaupmætti þeirra sem hingað koma með erlenda mynt, allt annað og miklu hærra á þessum árum.

Með öðrum orðum er það ekki bara verðþröskuldurinn sem ræður því að hingað streymir mikill fjöldi erlendra ferðamanna. Ísland er spennandi, eftirsótt, og menn eru tilbúnir að greiða talsvert fyrir það að fá að heimsækja þetta fallega land okkar.

Eins og kom fram í andsvari áðan voru gerðar á þessu greiningar og þá miðað við að virðisaukaskatturinn væri að fara upp í 25,5%. Hvað sýndu þær, eins og frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands? Jú, niðurstaðan var að gistinóttum gæti fækkað óverulega til að byrja með en síðan mætti gera ráð fyrir að ferðamönnum fjölgaði áfram þrátt fyrir slíka hækkun virðisaukaskatts. Það kæmi hugsanlega einhver örlítil dýfa tímabundið fyrst eftir að 25,5% skattur kæmi á og meðan það væri að jafnast út í verðlagið en síðan mundi fjölgunin halda áfram.

Ég er sammála því að kannski hefði átt búast við einhverju lítils háttar bakslagi ef þetta hefði gengið eftir með 25,5%, sérstaklega vegna þess að ferðaþjónustan eyddi allri orku sinni í að auglýsa það úti um lönd og álfur að hér ætti að fara að hækka á henni skattana. Það var framlag Samtaka ferðaþjónustunnar til markaðssetningar í eigin þágu þegar þessi áform komu til. Veldur líka hver á heldur. Það fær mig enginn til að trúa draugasögum af því tagi í björtu að ferðaþjónustan gæti ekki borið 14% virðisaukaskatt, auðveldlega núna eins og staða hennar er sterk, eins og landið hefur fengið mikla kynningu, eins og það skorar hátt í öllum helstu fagtímaritum og öllum helstu listum um eftirsóknarverða ferðamannastaði og í ljósi hagstæðs raungengis á krónunni borið saman við og vísað líka til þessara rannsókna.

Auðvitað voru það stórkostleg afglöp, ævintýraleg mistök, á sínum tíma að lækka gistinguna og þess vegna þjónustu veitingahúsanna niður í 7% 2007 með matvælum og menningu. Hvað voru menn að hugsa? Það geta verið rök fyrir því ef menn vilja hafa mjög lágt virðisaukaskattsþrep á matvæli, og ég hef reyndar verið stuðningsmaður þess að mæta þannig högum tekjulágra fjölskyldna sem eyða hlutfallslega miklu af ráðstöfunartekjum sínum í matarkaup, en það á ekkert skylt við það að gisting á hótelum eigi að vera í skattalegri bómull af þessu tagi. Auðvitað er aldrei hægt að fullyrða um verðteygni í svona löguðu en þó eru margar vísbendingar um það að samkeppnisstaða Íslands sé að þessu leyti mjög sterk. Við erum í hópi þeirra ríkja sem talin eru til dæmis standa hvað sterkast í samkeppni innan OECD, erum þar á topp tíu listanum og þar af leiðandi eru ekki undirstöður fyrir þessum áhyggjum manna af því að þessi litla breyting mundi gera stórt strik í reikninginn. Að minnsta kosti vega þær röksemdir að mínu mati allt of létt til þess að tapa út þessum tekjum við núverandi aðstæður.

Ég skil ekki hversu andvaralaus hæstv. ríkisstjórn er, að kenna þá ekki bara fyrri stjórn um og halda inni þessum tekjum. Við skulum taka það á okkur, það vorum við sem hækkuðum þetta, já, það er rétt. En af hverju leyfið þið þessu þá ekki að vera í friði? Af hverju eru hv. stjórnarliðar að baka sér vandræði inn í framtíðina? Þetta mun ekki valda öðru en meiri erfiðleikum við að ná tökum á ríkisfjármálunum, koma saman hallalausum fjárlögum og meiri sársauka einhvers staðar annars staðar. Eru hv. þingmenn stjórnarliðsins tilbúnir að skera niður á móti þessu í velferðarkerfinu? Eru hv. þingmenn stjórnarflokkanna tilbúnir til þess? — Já, það er rétt að horfa á rétta aðila.

Ef ekki, eru þingmenn stjórnarliðsins tilbúnir að afla annars staðar tekna, og þá hvar, á móti þessu? Ef ekki, þá verður niðurstaðan einföld, hallinn á ríkissjóði vex. Og dapurlegra getur það varla orðið fyrir þessa ríkisstjórn ef hún leggur af stað með ríkissjóð í þá átt, eftir allar fórnirnar og allar þjáningarnar sem menn hafa þurft að leggja á sig til að komast þó þangað sem við erum komin, niður í nokkurra milljarða halla.

Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, er verið að leggja mikið í fjárfestingu og uppbyggingu í þessari grein og það er vel, enda gengur það alveg ævintýralega vel með 15–18% vöxt að meðaltali á ári núna og um 30% vöxt yfir vetrartímann. Mánuðirnir nóvember, desember, janúar, febrúar og mars voru upp um 30–40%. Það er glæsilegur árangur, örugglega að einhverju leyti að þakka átakinu Inspired by Iceland og síðan Ísland allt árið, og í það leggur ríkið fjármuni, 300 milljónir á móti greininni. Það er að þakka mikilli kynningu sem landið hefur fengið og mörgu öðru. Það hefur síðan þau áhrif, eða á að hafa þau áhrif, að nýting batnar og arðsemi vex í greininni þannig að þessi hækkun virðisaukaskattsins ætti að vera léttbærari sem því nemur að okkur er að takast að lengja ferðamannatímann, hækka nýtingarhlutfall á hótelum yfir árið og fá inn meiri tekjur á dauða tímanum. Þróunin er öll í þá átt að þessar undirstöður greinarinnar eru að styrkjast.

Til viðbótar við 750 millj. kr. sem fara núna í uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum, uppbyggingu nýrra áfangastaða og þjóðgarða á friðlýstum svæðum renna 100–120 milljónir í hið sama vegna tekna af gistináttagjaldi. Það eru vissulega tekjur sem greinin leggur til sjálf. Þar til viðbótar fara 300 milljónir í markaðsátakið eins og ég nefndi og mætti tína til marga fleiri þætti sem koma ferðaþjónustunni til góða eins og uppbyggingu Kirkjubæjarstofu og sérstök verkefni á fjárlögum þannig að samtals fer vel á annan milljarð króna núna árlega í þessa fjárfestingu, hátt í það sem hækkunin á vaskinum á að gefa. Það munar ekki miklu að greinin fái beint til baka út úr fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, markaðsátakinu og fleiri slíkum aðgerðum um það bil sambærilegt skattfé og hún á að leggja í púkkið með þessum hætti. Það er ekki mikill munur þar á. Er það ósanngjarnt? Nei, ég held ekki.

Við skulum líka hafa það í huga að 7% virðisaukaskattur, útskattur á gistingu, þýðir eðli málsins samkvæmt að á tímum þegar talsverð uppbygging er í greininni og fjárfesting og mikill innskattur fellur til borgar greinin nettó engan virðisaukaskatt. Sum árin núna fær hún endurgreiddar 500–900 millj. kr., einfaldlega vegna þess að innskatturinn er meiri en þessi 7% útskattur. Er eðlilegt skattumhverfi að þessi þáttur atvinnurekstrar í landinu sé nánast í núlli eins og þetta kemur út? Í reynd væri að sumu leyti þá skárri kostur fyrir ríkið að setja gistinguna bara í núll og leyfa henni ekki að draga frá innskatt. Það er ekki gott út frá samræmingarsjónarmiðum en það kæmi sennilega betur út fyrir ríkið. Svo lág er þessi 7% tala. Þetta er veruleikinn.

Það á ekkert skylt við mat og menningu. Ég fullyrði það að að langstærstum hluta til getur ferðaþjónustan náð þessu inn í gegnum verðlagið án þess að það hafi teljandi áhrif á fjölda ferðamanna. Það segir mér til dæmis enginn að þetta sligi hótelrekstur í 101 yfir sumarmánuðina þegar erlendir ferðamenn kippa sér að sögn ekki mikið upp við það að borga fyrir gott hótelherbergi í júlí í miðborg Reykjavíkur 700 dollara á nóttina. Það er þó nokkuð. Það er greinilega hægt að verðleggja sig talsvert. Það er vissulega miðborg Reykjavíkur um hásumarið. Það er langur vegur frá því og út í gistingu á landsbyggðinni kannski yfir vetrartímann, mér er það vel ljóst. En þá held að aðrar leiðir væru vænlegri til þess að hlúa að henni, eins og meðal annars er verið að gera með stefnumörkun um að dreifa ferðamönnunum betur um landið, leggja áherslu á veturinn og leggja áherslu á allt landið í markaðskynningu heldur en að hafa ferðaþjónustuna á allt öðrum stað að þessu leyti hvað skatta snertir.

Vissulega er rétt að virðisaukaskattur á gistingu er lægri víða í samkeppnislöndum en fullt þrep. Það er rétt, það eru aðeins eitt, tvö dæmi um að þetta sé í fullu efra þrepi, enda er hér verið að leggja til millileið.

Þá að því að þetta sé svo flókið. Ég gef ekki nein ósköp fyrir það á tölvu- og tækniöld. Jú, jú, auðvitað þekki ég alveg þessi rök vina minna í skattinum, þeir vilja auðvitað hafa þetta sem einfaldast. Best þætti þeim sumum, og sumum frjálshyggjumönnunum, að leggja eina prósentu á allt landið og miðin, það væri bara ein skattprósenta á Íslandi á allt, eitthvert X. Það væri sama hvort það væru laun, fjármagnstekjur eða gisting, bara ein skattprósenta á landið og miðin. Það er einfaldast. En hvernig skattkerfi er það? Værum við sátt við það, mundi það dreifa byrðunum með eðlilegum hætti, láta þá borga sem eru aflögufærir og hlífa hinum? Nei, auðvitað ekki.

Það er ákveðið samræmingarsjónarmið líka sem þarf að hafa í huga hér í atvinnurekstri því að þetta er þrátt fyrir allt atvinnurekstur í samkeppni. Því verður ekki haldið fram með neinum rökum að þróunin í ferðaþjónustu að undanförnu eða aðstæður almennt í þessari grein kalli á það að hún njóti svona mikilla sérkjara hvað virðisaukaskatt snertir. Það eru ekki rök fyrir því þegar kemur að hótelgistingu og þess vegna þjónustu veitingahúsa.

Þegar áform voru um að leggja á bæði farseðla- og gistináttagjald lagðist móðurfyrirtæki íslenskrar ferðaþjónustu, Icelandair, sérstaklega gegn farseðlagjöldunum — og lagði hvað til í staðinn? Að taka þetta allt í gistináttagjöldum vegna þess að það viðkvæma væri að sýna þetta sérgreint á verðmiðanum sem því fylgir að koma til landsins. Það væri miklu betra að taka þetta í gistingunni eða annarri þjónustu sem ferðamaðurinn kaupir innan lands eftir að hann er kominn hingað. Og niðurstaðan varð sú að bakka með farseðlahlutann og fara með það allt inn í gistináttagjaldið sem reyndar er óskapleg óvera, en það er önnur saga. Á þá ekki það sama við hér?

Þegar ferðamaðurinn bókar verður hann að fljúga til Íslands nema hann taki Norrænu eða syndi, og þeir eru ekki margir sem leggja það á sig. Og það er alveg ljóst, allir verða að kaupa sér flugfar. En þegar þeir eru að panta ferðina að öðru leyti eða velja sér gistingu eftir að þeir eru komnir hingað, búnir að taka sér bílaleigubíl og lagðir af stað, er svigrúmið mjög mikið. Það er allt frá 700 dollara hótelherberginu í miðborg Reykjavíkur í júlí, 85 þús. kall nóttin, og niður í 6–8 þús. kr. á ódýru farfuglaheimili eða í bændagistingu úti á landi. Hótelin í Reykjavík eru með mjög breiða verðskrá sem ferðamennirnir geta þá bókað sig inn á í samræmi við það sem þeir eru tilbúnir að borga. Þar er ólíku saman að jafna og svigrúmið miklu meira sem menn hafa til að velja sér þá þjónustu af þeim gæðaflokki eða þeim dýrleika sem menn eru tilbúnir að borga. Ég kaupi ekki sögur og áhyggjur um að þetta sé sérstaklega varhugavert varðandi áframhaldandi vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar.

Mér segja margir kunnugir menn sem ég hef samneyti við í ferðaþjónustunni að trúlega gæti Ísland verðlagt sig verulega hærra á komandi árum en það gerir í dag vegna þess að kynningin sem við höfum fengið sé svo mikil og við gætum átt í vændum svo mikinn straum ferðamanna hingað að það hálfa væri nóg. Þetta telja sumir. Það er alveg rétt, þegar maður fylgist með því hvernig fjallað er um Ísland í erlendum fagtímaritum og á listum og hjá Lonely Planet og þessum aðilum sést að við erum alls staðar nánast á toppnum. Við höfum undanfarin þrjú ár alltaf átt staði, Vestfirði, Norðurland, einstaka staði og/eða landið í heild sem er í 1., 2., 3. eða 4. sæti yfir áhugaverðustu áfangastaði í heiminum. Það er ekki beinlínis eins og það sé eitthvað dauflegt fram undan í þessum efnum miðað við það sem fagmenn þekkja.

Þá kemur að einu öðru sem ég saknaði mjög að heyra ekkert frá hv. þm. Pétri Blöndal um. Þegar við höfum verið að ræða um hinn stórvaxandi fjölda ferðamanna hefur auðvitað oft komið upp sjónarmiðið: Eigum við þá ekki að láta það hafa aukið vægi að reyna að fá betur borgandi ferðamenn hlutfallslega eftir því sem það er hægt? Við þurfum kannski ekki allan þennan ofboðslega flaum, en það er gott að við fáum sem mestar tekjur og höfum sem mest út úr þessu miðað við þann fjölda og til dæmis það álag á náttúruna sem við tökum á okkur. Það er alveg rétt.

Ég geri þann skýra fyrirvara, gamall puttaferðalingur sem flæktist um heiminn með minn bakpoka og fór yfir Ástralíu með 30 dollara í vasanum, að ég vil ekki útrýma puttaferðalingum. Ég vil að við getum fengið alla flóruna til okkar og þannig á það að vera. En það er ekkert að því að hafa þetta sjónarmið í huga — og gerum við það? Erum við að sækjast eftir betur borgandi ferðamönnum að breyttu breytanda með því að vera með 7% vask á gistingu? Ha? Er það, hv. þm. Pétur Blöndal, er það aðferðin til að fá betur borgandi ferðamenn að þora ekki að hækka vaskinn úr 7% í 14%? Ég gef bara mjög lítið fyrir þetta, satt best að segja.

Þetta eru illa ígrunduð áform. Þarna eru núverandi stjórnarflokkar fastir í sinni eigin vitleysu frá því að þeir voru hér í stjórnarandstöðu og lögðust gegn þessu eins og öllu öðru og komast nú ekki út úr vitleysunni. Ég mun taka ofan fyrir stjórnarliðum ef þeir sjá að sér í þessum efnum, hætta við þetta og leyfa þessum tekjum að standa inni. Það er það eina vitræna í stöðunni, a.m.k. þangað til menn sjá heildarmyndina. Er skynsamlegt að reyta út tekjur í veiðigjöldunum og gistingunni og ætla svo að fara að reyna að koma saman fjárlögum, ætla svo að fara að kíkja á heildarmyndina? Það finnst mér vera að byrja á öfugum enda og veldur mér vonbrigðum að maður eins og hv. þm. Pétur Blöndal skuli vera framsögumaður fyrir þessum ósköpum, maður sem talar oft af mikilli væntumþykju um peninga. Það er bóndi norður í landi sem segir að hann verði aldrei glaðari í hjarta sínu en þegar hann heyri hv. þm. Pétur Blöndal tala um peninga. Ég hefði átt á öðru von, að það væri sérstaklega meiri ábyrgð í þessu af hálfu framsögumanns nefndarinnar.

Herra forseti. Eins og kannski hefur mátt ráða af þessum ræðubút mínum er ég ekki stuðningsmaður þessa máls, þvert á móti. Ég tel að þetta sé ekki vel ígrundað. Mér er alveg ljóst að það verða ekki allir kátir út í ferðaþjónustuna, auðvitað vilja allir borga lægri skatta, en ég kæri mig kollóttan um það. Annað eins hef ég tekið á mig. Ég stend hér stoltur fyrir því sjónarmiði að þetta hafi verið skynsamlegt og raunar mjög sanngjarnt eins og við slökuðum á þessu á sínum tíma, það sé afar hófsamlegt að fara þarna með virðisaukaskattinn í 14%. Flækjustigið skiptir ekki öllu máli, það einfaldar framkvæmdina, það eru aðeins um 600 aðilar sem skila inn framtali með þessu sérstaka þrepi — og það má líta á þetta líka sem lið í því að byrja að færa skattþrepin í vaskinum nær hvert öðru. Við vitum það öll að það er mikið vandamál að hafa svona langt bil á milli 25,5% annars vegar og 7% hins vegar. Það er freistnivandi í því að færa mál niður í lægra þrepið og flestir fagmenn á þessu sviði telja að það eigi að láta skattþrepin nálgast hvert annað ef ekki stefna að því að sameina þau í eitt í fyllingu tímans.