144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:44]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Það er kannski til marks um áhuga fólks almennt á byggðamálum að það eru tveir þingmenn í salnum auk mín og þingforseta. Mig langar aðeins að fara yfir þetta mál. (Gripið fram í: Það hefur fjölgað …) Það fjölgaði, það er ánægjulegt.

Það er einhver ástæða fyrir því að ástandið er eins og það er. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan var byggð á Langanesi sem hét Skálar. Hún lagðist af, þar býr enginn. Það var einu sinni búið í Flatey á Skjálfanda. Þar býr enginn í dag. Árið 1901 bjuggu 13 þús. manns á Vestfjörðum, þá bjuggu í Reykjavík 8 þús. manns. Frá árinu 2000 búa í Reykjavík 121 þús. manns og nú á Vestfjörðum 7 þús. manns.

Það er einhver ástæða fyrir því að þetta er svona. Þetta er allt saman mannanna verk. Því má aldrei gleyma.

Ég skal viðurkenna að það að þingsályktunartillagan heitir Bráðaaðgerðir í byggðamálum vakti mig til enn frekari umhugsunar. Ég man þá tíð að Samfylkingin var í ríkisstjórn. Það er ánægjulegt að Samfylkingin hefur lært eitthvað af síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins þar sem lögð var fram ályktun um jafnrétti til búsetu.

Hér er um algjört réttlætismál að ræða. Þetta snýst ekki um einhverjar sporslur eða ölmusu. Ég ætla að fá að taka eitt dæmi og ég ætla ekki að gera lítið úr því að allt í einu núna er búið að hengja upp skilti RÚV á Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík. Það á virka sem einhvers konar sporsla eða ölmusa. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að RÚV er komið með starfsstöð á Húsavík, en þetta snýst nefnilega um ákveðið réttlæti.

Ég held að það sé nefnilega ekki jafnrétti til búsetu í landinu eins og staðan er í dag. Já, við glímum við mjög alvarlega þróun í byggðamálum. Ég held að grunnvandinn sé sá að fólk eltir skattpeningana sína. Hvar eru þeir best nýttir? Jú, þeir eru best nýttir á höfuðborgarsvæðinu.

Útflutningstekjur úr Norðausturkjördæmi eru 41% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þeim fjármunum er ekki öllum varið í því kjördæmi, ég held að það sé alls ekki þannig. Þess vegna vildi ég koma því til flutningsmanna tillögunnar, og kannski formanns Samfylkingarinnar, að það hefði verið gaman að sjá í þessu skjali að við sem þjóð og samfélag hefðum nýtt skattkerfið okkar betur til að snúa þessu við, að menn borgi til dæmis almennt lægri skatta ef þeir búa til dæmis á Raufarhöfn eða Patreksfirði. Svo sannarlega er þjónustan þar minni eins og flutningsmaður tillögunnar fór yfir hér í upphafi.

En mig langar að nefna eitt dæmi sem sýnir í raun hversu fáránleg staðan er í dag. Sveitarfélagið Norðurþing á tvær fasteignir á Raufarhöfn. Fasteignamatið er 15 milljónir og 17 milljónir. Fyrir þessar fasteignir fæst kannski 1 milljón sem sýnir okkur hversu fáránleg staðan er. Við því þarf að bregðast. Ég er alveg sammála því að það er bráðavandi sem þarf að leysa. Það er óraunhæft að staðan sé eins og hún er.

Það að staðan sé eins og hún er held ég að sé grafið djúpt í kerfið, í þjóðarsálina. Þetta var ekki að gerast fyrir 10 árum, ekki 20 árum, ekki 30 árum, við þurfum að fara nokkuð langt aftur í tímann. Þetta hefur verið mjög lengi í gangi.

Nú er ráðgert að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar. Fiskistofa var einu sinni í Garðabæ, ég held að það sé rétt hjá mér, eða Reykjavík, hún var í Reykjavík og var flutt í Hafnarfjörð, flutt á milli sveitarfélaga. Segjum að hún væri að fara yfir í Garðabæ eða á Seltjarnarnes, þá held ég að umfjöllunin um Fiskistofu væri ekki eins og hún er. Hún er eins og hún er af því að hún er að fara norður í land, eins og menn kalla það. Þá tala menn einhvern veginn eins og það sé ofboðslega langt í burtu, langt frá einhverjum miðpunkti. Jú, miðpunktur Íslands er í einu horninu, í suðvesturhorni landsins.

Umræðan um Fiskistofu væri þá ekki eins og hún er í dag, því miður, og þar bregðast fjölmiðlar. Umfjöllunin um Fiskistofu væri ekki svona nema af því að hún er að fara frá höfuðborgarsvæðinu. Hér muna aðrir eftir baráttunni um flutninginn á Landmælingum Íslands og fleiri stofnunum. (Gripið fram í.) Já.

Ég get ekki farið úr þessum ræðustól án þess að nefna lið númer 11 sem ég fagna alveg sérstaklega. Mig langar að vitna, með leyfi forseta, beint í lið númer 11 þar sem rætt er um heilbrigðiskerfið:

„Mikillar óánægju hefur gætt með sameiningarnar þar sem þau sjónarmið hafa komið fram að þessar aðgerðir dragi úr öryggi og þjónustu, og leiði til þess að störf fyrir háskólamenntaða flytjist frá dreifðari byggðum til þéttbýliskjarna.“

Þetta er gríðarlega flottur punktur. Já, það sem verður eftir er einsleitara samfélag í hinum minni og dreifðari byggðum. Það er rétt. Ég held áfram:

„Þannig draga aðgerðirnar líka úr fjölda háskólamenntaðra þjónustustarfa í viðkomandi byggðum.“

Það er því miður þannig að heilbrigðisráðherra hefur með reglugerð lagt það til að sameina allar heilbrigðisstofnanirnar á Norðurlandi í eina, algjörlega án þess að þurfa að útskýra hverjum í hag. Hann hefur komist upp með það. Hann hefur ekki þurft að útskýra það í þessum ræðustól og ekki í neinum blöðum. Hann þarf hvergi að útskýra hvers vegna á að gera þetta.

Flutningsmaður tillögunnar, formaður Samfylkingarinnar, sagði að þetta hefði ekkert verið tekið út. Ríkisendurskoðun tók út sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi 2009. Menn settu sér markmið í upphafi árið 1999 þegar heilbrigðisstofnanir voru sameinaðar á Austurlandi, svipuð markmið og menn setja sér núna.

Ég ætla að fá að vitna í bréf sem sveitarfélögunum voru send í heilbrigðisumdæmi Norðurlands. Þar voru markmiðin með þessari sameiningu styrkari stjórnun, aukið sjálfstæði, hagkvæmni, betri, öruggari og sveigjanlegri þjónusta við íbúa. Það átti ekki síst við í jaðarbyggðum þar sem heilsugæslustöðvar og sjúkrahús eru hluti af heilbrigðisstofnun umdæmisins.

Þá spyr maður sig: Ætlar heilbrigðisráðherra að fara að bjóða upp á betri þjónustu á Raufarhöfn en gert er í dag en spara samt peninga? Þetta er fáránlegt.

Það að heilbrigðisráðherra hafi ítrekað komist upp með það að svara ekki fjölmörgum spurningum um þetta mál er óeðlilegt. Mér finnst mjög lélegt að ráðherra í ríkisstjórn skuli leyfa sér þetta með reglugerð.

Í lokin vil ég segja að þessu verður ekki snúið við nema með einhverjum tilkostnaði. Það þarf einhvern fórnarkostnað. Ef við ætlum núna að fara að byggja upp úti á landi — nú segi ég eins og maður gagnrýnir — ef við ætlum að fara að byggja upp utan höfuðborgarsvæðisins erum við ekki að fara að byggja upp á höfuðborgarsvæðinu. Það mun kosta fórnir að ætla að fara í framkvæmdir í hinum dreifðu landsbyggðum. Það mun kosta ákveðnar fórnir. Þá velta menn fyrir sér hvort þingheimur, ríkisstjórn og við sem samfélag erum almennt tilbúin að verja skattpeningunum okkar annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.