145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Vissulega er það rétt að mikið sé til af áætlunum um skipulag og kortlagningu hluta. Landsskipulagið er heildarstefna og síðan þrepaður maður sig niður, aðalskipulag er fyrir sérhvert sveitarfélag og svo endum við í deiliskipulagi þar sem við kortleggjum nákvæmar má segja hvern reit.

Það sem við erum að tala um núna er hvað það er nauðsynlegt varðandi ferðamannastaðina, nákvæmlega eins og þingmaðurinn kom inn á, að utan um þá sé haldið og það sé kortlagt hvað það er nákvæmlega sem þarf að gera á hverjum stað fyrir sig til þess að aðgerðir sem við leggjum fé í komi að góðum notum til verndar náttúrunni og því sem þarf að gera. Þetta liggur ekki fyrir. Margir ferðamannastaðir þakka fyrir það fé sem var veitt núna aukalega í vor. En það kom það seint fram að kannski var ekki komið deiliskipulag fyrir staðinn eða það var ekki hægt að fá verktaka. Það eru margar ástæður fyrir því að ekki er enn búið að deila út peningunum.

Þar sem ég er jafnframt formaður Þingvallanefndar þá get ég sagt að þjóðgarðurinn fékk um 156 millj. kr. aukalega. Það er ekki búið að vinna fyrir það fé allt saman, en það mun verða gert á þessu ári. Það stýrist af þessum þáttum að hausti. Núna er líka mjög góður framkvæmdatími.