145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil bara leggja aðeins meiri áherslu á spurninguna: Er það ekki eitthvað sem við þurfum að skoða í þessari vinnu í nefndinni núna hvort hægt sé að aðstoða sveitarfélög og jafnvel stofnanir eftir atvikum, mér skilst að það séu ekki síst stofnanir ríkisins sem séu lengi að svara, til þess að vinna hraðar og betur með það skipulag sem við eigum til nú þegar? Hefur það verið skoðað í ráðuneytinu? Fulltrúar Ferðamálastofu hafa sagt að það þurfi að fá svæðisbundnar áætlanir sem fyrst. Þannig sé fljótlegast að forgangsraða uppbyggingu ferðamannastaða. Þetta segir Ferðamálastofa og bendir á gott dæmi úr svæðisskipulagi Snæfellsness sem er unnið alveg til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Ég spyr: Erum við kannski komin með þetta fyrirkomulag nú þegar og verðum bara að nýta það betur?