149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér finnst það ótrúlegt hjá hv. þingmanni, sem er góður og gildur bóndi og hv. alþingismaður, að hann skuli tala um það sem tækifærismennsku að reyna að bregðast við þeim brostnu forsendum sem eru í þessu máli. Hv. þingmaður þekkir það mætavel að við erum að horfa fram á það að okkar stærsti markaður í þessum samningi er að fara úr þeim samningi. Það er fullkomlega eðlilegt, hv. þingmaður, að í svona aðstæðum bregðist menn við, setjist niður með aðilanum sem maður samdi við og leiti leiða til að rétta þessar breyttu forsendur sem hafa veruleg áhrif á okkur.

Hv. þingmaður nefndi hér aðdragandann að þessum samningi. Hann þekkir hann eflaust betur en ég en hann er ekki aðalatriðið í þessu máli, engan veginn. Ég veit að hv. þingmaður sér það og skilur að það er algerlega nauðsynlegt að fara yfir þetta mál að nýju. Bændasamtökin, hagsmunasamtök bænda, hafa lagt til að þessum samningi verði sagt upp. Það er engin tækifærismennska, hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því. Við erum einfaldlega að bregðast við nýjum aðstæðum með hagsmuni heildarinnar, hagsmuni bænda, þess fólks sem starfar í landbúnaði, að leiðarljósi. Og hagsmuni Íslands, því að þetta er það stórt markaðssvæði að við verðum að bregðast við.