149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það þjónar engum tilgangi að vera að benda á hver átti að gera hlutina eða hver ekki. Staðreynd málsins liggur fyrir, það var ekkert skoðað hvaða áhrif þessi samningur hefði á íslenskan landbúnað, íslenska búvöruframleiðslu.

Ég nefndi hér áðan mótvægisaðgerðir. Hæstv. landbúnaðarráðherra segir á síðasta þingi, í umræðum um þennan samning, að hann sé að vinna að mótvægisaðgerðum. Svo spyr ég hann hér, eins og ég sagði í ræðu minni í tengslum við fjárlagaumræðuna, hvaða fjármunum væri varið í þessar mótvægisaðgerðir og svarið er: Ekki neinum. Það er nú bara þannig að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ekki haldið vel á þessu máli. Það hlýtur að vera á hans ábyrgð, þegar hann segir að hann boði mótvægisaðgerðir, að hann tryggi fjármagn fyrir þeim. Það er lífsnauðsynlegt að fara í mótvægisaðgerðir. Við horfum upp á það að hugsanlega gæti sérostaframleiðsla á Íslandi lagst niður og 22–25 störf lagst niður í Dalabyggð sem er Mekka sérostaframleiðslunnar á Íslandi og stærsti vinnustaðurinn þar.

Í mínum huga er ekkert hægt að vera að benda á hver átti að gera hvað, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega áðan. Þetta snýst bara um að bregðast við málinu þannig að það verði ekki um seinan og skaði skeður fyrir íslenskan landbúnað.