149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:35]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Það er nákvæmlega ein ástæða fyrir því að Ísland er ekki stærsta útflutningslandið í heiminum á skyri og það er sú forneskjulega nálgun sem viðhöfð hefur verið í tollvernd í landbúnaðarmálum og á landbúnaðarvörum.

Þessi svokallaða verndarstefna hefur gert það að verkum að í stað þess að stórkostlegar íslenskar landbúnaðarafurðir séu jafnmikils metnar úti í Evrópu og franskir ostar eða nýsjálenskt lambakjöt, þá sitjum við hér og horfum á Finnland sigla fram úr Íslandi í útflutningi á skyri, á fleygiferð. Þeir eru að taka yfir evrópskan skyrmarkað. Af hverju eru Finnar að því? Er það kannski vegna þess að við neitum að taka þátt í alþjóðlegum viðskiptum?

Frú forseti. Þessi tillaga er fráleit vegna þess að hún gengur að hluta til út á að ræna íslenska neytendur úrvali evrópskra gæðavara í þágu pirrings yfir því að geta ekki stundað frjálsari viðskipti. Og bara svo að það sé á hreinu þá eru engir íslenskir ostarframleiðendur að framleiða livarot eða tomme de savoie eða brillat-savarin. Skortur á framboði á ostum frá Evrópu kemur ekki til með auka innlenda sölu á óðalsosti eða öðrum ágætum íslenskum sérostum.

Þetta er kannski lélegur samningur en forsendan fyrir þessari tillögu er kjánaleg. Þetta er í raun frekar trumpísk nálgun hjá Miðflokknum, þ.e. ef við fáum ekki viðskiptajöfnuð, þrátt fyrir að hafna viðskiptafrelsi til byrja með, þá ætlum við að hafna viðskiptafrelsi til þess að knýja fram viðskiptajöfnuð. Þetta er augljóslega svona galin hringekjuröksemdarfærsla sem stenst ekki neina skoðun.

Vissulega eru engin viðskipti ákveðið form viðskiptajöfnuðar en reynslan sýnir bara að þetta er ekkert sérstaklega eftirsóknarvert form. Ef fólk vill raunverulega stuðla að öflugum og sjálfbærum landbúnaði á Íslandi þá þarf meiri alþjóðaviðskipti og ekki minni. Leiðin þangað er ekki að segja upp þessum samningi. Leiðin þangað er að reyna að útvíkka þennan samning. Leiðin þangað er að reyna að ganga lengra í erlendri markaðssetningu á íslenskum landbúnaðarvörum. Leiðin þangað er jafnvel að hætta að vera með einhvers konar sérþarfir landbúnaðarins alltaf efst á baugi í allri umræðu um alþjóðaviðskipti okkar og fara frekar þá leið að reyna að koma þessum vörum á markað út um allan heim. Vegna þess að þetta eru góðar vörur og það að ætla bara að draga sig í hlé og vera ekki í þessum viðskiptum, út af einhverjum, hvað 800 kg eða þar um bil? eða tonnum af osti, er bara léleg pólitík, frú forseti.