150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[11:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hér erum við komin með áttundu jafnréttisáætlunina sem stjórnvöld leggja fyrir þingið og það er mikilvægt að halda áfram vinnunni að jafnrétti. Nokkrar spurningar vakna samt. Ég fékk þann heiður að vera framsögumaður síðustu jafnréttisáætlunar sem var samþykkt á þingi og fylgdist með ferð áætlunarinnar í gegnum þingið. Þessari áætlun fylgir annars vegar skýrsla sem nær til ársins 2017 og hins vegar svar við fyrirspurn þingmanns sem gerir grein fyrir framvindu verkefna. Ég vil beina þeirri spurningu til flutningsmanns hvort við þurfum hugsanlega betri mælikvarða, ekki síst fyrir þingið, til að bera saman við afgreiðslu nýrrar áætlunar um hvernig framvindan er í rauninni. Mér finnst ýmislegt benda til þess að hún sé býsna góð en velti því fyrir mér hvort við gætum ekki skilgreint það betur og kannski haft aðeins einfaldara form á því að fylgjast með framvindu verkefnanna.

Það er eðlileg samfella milli verkefna, það eru aðeins fleiri aðgerðir í þessari áætlun, 24 núna en 21 síðast. Sum verkefni breytast örlítið vegna þeirrar framvindu sem verður o.s.frv. Jafnrétti og byggðamál finnst mér afskaplega mikilvæg verkefni því að rannsóknir hafa sýnt bæði hversu mikill kynjahalli er oft í smæstu samfélögunum í íbúasamsetningu og verkefnum kynjanna en ekki síður í því að þau verkefni sem við förum í nýtast kynjunum á mjög mismunandi hátt.