150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[11:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og tek undir að við þurfum að horfa til jafnréttissjónarmiða á svo mörgum sviðum. Ég má til með að nefna eitt dæmi sem ég varð vör við þar sem barn var að byrja á leikskóla og hvergi var gert ráð fyrir að komið væri með barnið í kerru í leikskólann og kerran geymd yfir daginn. Þetta er lítið dæmi um hluti sem þarf að huga að, að það sé skýli.

Mig langaði að snúa mér að fæðingarorlofinu í framhaldi af mælikvörðunum. Hér eru sett mjög mikilvæg og metnaðarfull markmið. Ég beini þeirri spurningu til flutningsmanns hvort ekki þurfi líka að huga að þeim sem eiga engan rétt á fæðingarorlofsgreiðslum eða mjög skertum fæðingarorlofsgreiðslum og fæðingarstyrk og hvernig við nálgumst það út frá jafnréttissjónarmiðum. Sú spurning hefur töluvert komið upp í vinnu þverpólitískrar nefndar um málefni barna sem eitt af atriðunum sem þurfi að huga að í jafnréttinu til að tryggja börnum jafnrétti frá fæðingu.