150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[12:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni og komið með margar góðar athugasemdir. Mig langar fyrst að nefna ágæta athugasemd hv. þm. Þorsteins Víglundssonar um að þessi áætlun sé að sumu leyti dálítið kerfislæg. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það er eðli þessarar áætlunar eins og hún hefur þróast. Hún byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Vinnulagið byggir á því að ráðuneyti skila inn tillögum og verkefnum sem gerir áætlunina eðli máls samkvæmt talsvert kerfislæga. Hins vegar er þetta ekki það eina sem við erum að gera í jafnréttismálum. Margt annað sem við erum að gera er dálítið utan við ramma svona áætlana. Ég ætla að nefna eitt ágætisdæmi, #metoo-ráðstefnuna sem við héldum í síðustu viku. Við ákváðum bara að halda hana en svo má segja að hún skili sér inn í svona kerfisáætlun. Hún hefur þó miklu víðtækari áhrif en að vera innan kerfisins, hún var gríðarlega vel sótt og skilaði sér í mikilli umræðu í samfélaginu enda er hlutverk stjórnvalda líka að hvetja til umræðu. Ég vildi fyrst og fremst segja að svona áætlun verður aldrei tæmandi plagg og eðli máls samkvæmt er hún töluvert kerfislæg, ég fellst á þá gagnrýni.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talaði um kynskiptan vinnumarkað, sem er hárrétt, íslenskur vinnumarkaður er töluvert kynskiptur, og þess vegna langar mig að nefna að í lið 15, undir menntamálum, er sérstaklega fjallað um kynbundið námsval sem ég held að sé rótin að kynskiptum vinnumarkaði. Þar eru aðgerðir sem er ætlað að kortleggja kynjaskiptingu í öllum nemendahópum og þjónustuliðum framhaldsfræðslukerfisins sem og að skoða framhaldsskólann. Þarna held ég að við getum náð verulegum árangri og ekki með handstýringu heldur held ég að þetta snúist mjög mikið um kynningu á námi. Við höfum náð verulegum árangri í að efla aðsókn í iðnnám einfaldlega með meiri kynningu og það er verkefni sem hefur staðið yfir í a.m.k. tíu ár því að ég man að ég lagði af stað í það sem mennta- og menningarmálaráðherra með Samtökum iðnaðarins. Það hefur haft veruleg áhrif á aukinn áhuga nemenda á iðnnámi, áhuga sem skilar sér í aðsókn í iðnnám. Ég held að áhuginn hafi verið fyrir hendi allan tímann en ákveðnir þættir í kerfinu lögðu stein í götu iðnnámsins. Ég tel að þarna höfum við náð árangri með markvissri vinnu í töluvert langan tíma og ég held að við getum gert það sama hér. Svo vil ég nefna lið 9 um jafnrétti á vinnumarkaði þar sem er sömuleiðis talað sérstaklega um kynskipt náms- og starfsval með samtökum aðila vinnumarkaðarins.

Þetta eru þær aðgerðir sem tengjast átakinu en ég er sammála hv. þingmanni um að það þarf að fá miklu meiri athygli í jafnréttisumræðunni.

Nokkrir hv. þingmenn ræddu sérstaklega um utanríkisstefnuna og þar fundust mér koma fram áhugaverðar athugasemdir sem full ástæða er til að taka áfram og ræða sérstaklega í nefndinni. Jafnrétti hefur í meira en áratug verið vaxandi þáttur í íslenskri utanríkisstefnu og ég held að það sé ástæða til að skoða hvort við getum formgert það einhvern veginn eins og mér finnst hv. þingmenn leggja til.

Hér var rætt um fjármuni í áætlunina og það er í sjálfu sér alveg rétt að þeir flæða ekki um ganga í áætluninni. Þó vil ég minna á Jafnréttissjóð sem er áfram töluvert stór og milljónin sem er talað um sem viðbót í Jafnréttissjóð er hugsuð í úttekt á árangri þeirra verkefna sem hafa verið unnin þar. Þau eru mjög mörg og mörg þeirra á undanförnum árum hafa verið mjög áhugaverð að mínu viti. Jafnréttissjóður sem hefur numið 100 milljónum var stofnaður af þinginu eins og ég kom að í ræðu minni og ég tel að við þurfum að taka afstöðu til þess hvort við viljum ekki halda honum áfram sem rannsókna- og verkefnasjóði á sviði jafnréttismála. Ég held að það sé hins vegar mikilvægt að við fáum þessa úttekt þannig að þingið geti tekið afstöðu til þess hvort við viljum ekki halda sjóðnum áfram og gera þá á honum breytingar.

Áhugavert var að heyra hv. þingmenn ræða um kynin og almannatryggingar og sömuleiðis heilsu karla og kvenna. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir vísaði til mjög áhugaverðrar skýrslu í ræðu sinni um fjölgun örorkulífeyrisþega, kynjahlutföll og hvernig þessi fjölgun hefur verið. Þetta þurfum við að ræða miklu betur og er tvímælalaust verkefni sem mér finnst kalla á víðtækari umræðu í þingsal því að það tengist líka heilsu karla og kvenna sem margir hv. þingmenn komu inn á.

Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir ræddi um að þessi áætlun ætti ekki eingöngu að snúast um jafnrétti karla og kvenna. Áætlunin byggir auðvitað á lögunum og þau snúast um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í morgun fór af stað fyrsti samráðsfundurinn um heildarendurskoðun á jafnréttislögum. Eitt af því sem þarf að ræða í því samhengi er útvíkkun jafnréttishugtaksins, hvort við viljum útvíkka þessi lög eða sjá þau áfram sem lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í ljósi þess að nú erum við komin með aðra lagabálka um jafna meðferð og stöðu bæði á vinnumarkaði og utan vinnumarkaðar þar sem tekið er til þessara útvíkkuðu þátta. Sú umræða held ég að kalli á dýpt. Við ætlum að leggja á það áherslu í þessari vinnu, markmiðið er að leggja fram heildarendurskoðun á lögunum á næsta þingvetri og markmiðið er að kalla sem flesta að borðinu í þeim efnum. Ég held að það væri áhugavert fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að fá umræðu um þetta í nefndinni með þeim fulltrúum forsætisráðuneytisins sem stýra heildarendurskoðuninni á einhverjum tímapunkti, annaðhvort í tengslum við umfjöllun um þetta mál eða síðar í vetur. Jafnframt er mikilvægt að kalla eftir sjónarmiðum þingsins til þessa.

Jafnrétti í stjórnum fyrirtækja var nefnt og líka í stjórnendahópum. Það er langt um liðið síðan lög voru sett um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Þeim hefur ekki verið fylgt eftir eins og ýmsir hv. þingmenn nefndu. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson ræddi um bæði æðstu stjórnendur og næsta lag í stjórnendahópum fyrirtækja. Þar getum við svo sannarlega gert betur og vonir stóðu til þess þegar lögin voru sett um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja að það myndi hafa áhrif á stjórnendahópa. Þeim lögum hefur ekki verið fylgt eftir. Hér hefur verið unnið frumvarp, eins og hv. þingmenn höfðu orð á, um viðurlög við brotum á þeim lögum og mér finnst að við verðum að ræða það opinskátt. Það er óviðunandi að lögunum sé ekki fylgt. Ég tel ástæðu þess að við sjáum ekki fleiri konur sem stjórnendur og næststjórnendur í fyrirtækjum hljóta að einhverju leyti að tengjast því að ekki hafi náðst að fylgja ákvæðum þessara laga. Ég held að það sé mikill missir fyrir íslenskt atvinnulíf.

Svo fannst mér það óskaplega gott sem rætt var um að jafnréttisumræðan beindist ekki gegn körlum því að það gerir hún sannarlega ekki. Áhugaverð reynsla okkar af fæðingarorlofinu sem ég vísaði til í framsöguræðu minni sýnir að íslenskir feður eru jákvæðari en aðrir feður á Norðurlöndum gagnvart lengingu fæðingarorlofs. Þeim finnst frábært að sinna með þessum hætti uppeldishlutverki sínu, a.m.k. frábærara en feðrum annars staðar á Norðurlöndum. Það finnst mér sýna að lögin hafi haft áhrif á gildismat sem og minna okkur á að lög sem ætlað var að auka jafnrétti kynjanna hafa gefið körlum ekki síður en konum tækifæri, bara á öðru sviði, og gefið körlum ekki síður en konum aukin lífsgæði, líka á öðru sviði. Þetta hefur orðið til þess að auka atvinnuþátttöku kvenna en um leið aukið hlut karla í uppeldi barna. Hvort tveggja myndi ég segja að væri gríðarlegur ávinningur fyrir bæði kyn.

Tíma mínum er lokið og ég þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir og vona að umræðan verði góð í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.