152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það að spyrja spurninga um óréttlæti virkar. Allt síðasta kjörtímabil spurði ég spurninga og safnaði gögnum um hvers vegna ekki væri farið eftir lögum um almannatryggingar og hvers vegna fólkið sem er ekki með verkfallsrétt en þarf að reiða sig á framfærslu frá hinu opinbera fær ekki lögbundnar hækkanir á lífeyri sínum. Til þess að hafa það algerlega skýrt þá hljómar lagagreinin svo að bætur almannatrygginga breytast þannig að ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó verði þær aldrei minni en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Túlkunin hingað til hefur verið sú að bæturnar hækka samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar um verðbólgu fyrir næsta ár og spá fjármálaráðuneytisins um launaþróun. Staðreyndin er sú að á þeim rúmlega 20 árum sem þetta fyrirkomulag hefur verið í lögum hefur spá ráðuneytisins nánast alltaf verið röng, alltaf of lág. Samtals svo röng að lífeyrir ætti að vera um 50% hærri ef hann hefði fylgt launaþróun undanfarin 20 ár.

Nú er hins vegar búið að breyta lagatúlkuninni. Það virkar greinilega að spyrja spurninga. Nú er horft til þess árs sem er að líða og vanmat á þeirri verðlagsþróun viðurkennd. Lífeyrir er hækkaður á næsta ári aukalega um 0,8% til að koma til móts við það vanmat. En það er hins vegar ekki horft til vanmats á launaþróun sem hefur verið miklu meiri en gert var ráð fyrir. Nú er allt í einu komin ný lagatúlkun án þess að lögum hafi verið breytt. Ég hef reynt að spyrja af hverju það er í störfum fjárlaganefndar fyrir fjárlög næsta árs en engin svör fengið. Eina skýringin er í raun að ákvörðun um nýja túlkun sé pólitísk. Það þýðir að fyrri túlkun laganna hafi einnig verið pólitísk. Það er því augljóst mál að lífeyrir almannatrygginga ætti að vera 50% hærri en er, vegna pólitískrar ákvörðunar allra stjórnvalda undanfarin 20 ár, lægri. Lagatúlkunin var greinilega ekki rétt miðað við nýja túlkun og nýja túlkunin er ófullkomin af því að hún tekur bara tillit til verðlagsþróunar en ekki launaþróunar. Lífeyrisþegar þurfa því enn að búa við pólitískan geðþótta um framfærslu sína og við þurfum að spyrja: Af hverju? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)