152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Engan óvæntan glaðning handa öryrkjum. Það gæti auðvitað verið stórhættulegt. Þeir gætu keypt eitthvað fyrir það en ekki þetta 1% sem fer í gegnum kerfið og lendir aftur í ríkissjóði. Desemberuppbót ellilífeyrisþega er 60.189 kr. og tekur mið af fjölda mánaða sem viðkomandi fékk greidda á árinu. Desemberuppbót er tekjutengd eins og aðrar greiðslur til ellilífeyrisþega. Hvað þýðir það? Jú, allar aðrar tekjur skerðast. Þetta er bara viðmiðunartalan, flestir fá ekki neitt. Desemberuppbót örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega er 30% af greiddri tekjutengingu árið 2021 og 30% af greiddri heimilisuppbót. Uppbótin er greidd í samræmi við fjölda mánaða sem viðkomandi fær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Miðað við fulla tekjutryggingu er desemberuppbót 47.881 kr. en ef viðkomandi er með heimilisuppbót bætast 16.184 kr. við. Desemberuppbót breytist í samræmi við breytingar á tekjutryggingu sem getur haft lækkun í för með sér. Hver er sú lækkun? Ef barn, tvítugt, býr hjá öryrkja, hvað skeður? 16.000 kr. farnar og ekki bara 16.000 kr. heldur 108.000 kr. á mánuði, vel rúmlega milljón á ári. Barnið refsar foreldrum sínum. Hvað á foreldrið að gera? Henda því út til að fá heimilisuppbót, til þess að fá jólabónus?

Því fjárhagslega ofbeldi sem viðgengst í þessu kerfi verður að linna. Við verðum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þessir hópar standi á sama stað og við sem fáum launin okkar. Það er enginn sem segir að yfirvinna eigi að skerða okkar jólabónus. Það er enginn sem segir að aðrar tekjur eigi að skerða jólabónusinn okkar. Ég tel þetta brot á stjórnarskránni, um jafnrétti. Þetta getur ekki verið löglegt, það er a.m.k. algjörlega hundrað prósent ósiðlegt að taka einn hóp út og segja að hann fái jólabónus en sjá svo til þess með öllum ráðum að hann fái hann ekki.