152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki síst á aðventunni sem íslensk menning og listir glæða tilveruna. Við sækjum menningarviðburði og verslum fallega hönnun í jólapakkana, en heimsfaraldur hefur leikið þau sem starfa í þessum greinum ótrúlega grátt. Það kom fram hjá fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna að starfandi listafólki hefur frá upphafi faraldursins fækkað um heil 19%, um fimmtung, herra forseti. Það er nær helmingi meira en í öðrum atvinnugreinum. Og þá hefur konum í faginu fækkað sérstaklega, hvort sem þær eru launþegar eða sjálfstætt starfandi.

Stjórnvöld hafa vissulega með stuðningi stjórnarandstöðunnar ráðist í margar nauðsynlegar aðgerðir í þágu þeirra sem verst urðu fyrir barðinu á faraldrinum, en nú eru margar af þessum aðgerðum að renna sitt skeið á enda og það er mjög nauðsynlegt að við hér inni bregðumst við því. Við þurfum jafnframt að hafa hugfast að það er ekki nóg að gera fólki og fyrirtækjum kleift að halda sjó í gegnum þetta erfiða tímabil, það er nauðsynlegt að sjá til þess að einstakir mikilvægir þættir í atvinnu- og mannlífinu beri ekki varanlegan skaða af ástandinu, m.a. menning og listir.

Skapandi hugsun mun þurfa að leika miklu stærra hlutverk í hagkerfi framtíðarinnar auk þess sem öflugt listalíf er mikilvægt fyrir sjálfsmynd okkar. Staða menningar er alls ekki verri mælikvarði á heilbrigði þjóðar en hver annar.