152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti, 265.000 kr. — þannig er óskertur örorkulífeyrir í dag, langt undir lágmarkslaunum, fimm sinnum lægri upphæð en mánaðarlaun okkar hér í þessum sal. Samkvæmt mælaborði Tryggingastofnunar þurfa yfir 7.000 manns á örorku- og endurhæfingarlífeyri að draga fram lífið á minna en 300.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Myndum við hér inni treysta okkur til að lifa á þeim kjörum? Ég er ekki viss um það. Er það furða, þegar staðan er þessi, að meiri hluti öryrkja þurfi að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar? Kemur það okkur eitthvað á óvart að meiri hluti öryrkja segist eiga erfitt með að ná endum saman um hver mánaðamót, eins og kom fram í skýrslu Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Nei, ég held að við vitum öll hvernig þessi hópur hefur setið eftir á undanförnum árum. Það koma alltaf einhver loforð um heildarendurskoðun. Þetta er sagt á hverju einasta ári, á hverju einasta kjörtímabili, heildarendurskoðun. En svo breytist eiginlega ekki neitt og þessi sömu óljósu fyrirheit, um heildarendurskoðun einhvern tímann inn í framtíðina, eru svo notuð sem afsökun fyrir því að neita öryrkjum um kjarabætur hér og nú.

Virðulegi forseti. Við getum gert betur. Ef við getum ekki sameinast um að leiðrétta kjaragliðnun milli launa og lífeyris, ef stjórnarmeirihlutinn, þingmenn Framsóknarflokksins, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, er í alvörunni svona eindregið á móti því og ef við getum heldur ekki sameinast um að hækka frítekjumarkið hjá öryrkjum eins og gert er hjá eldri borgurum varðandi atvinnutekjur nú eftir áramót — ef við getum þetta ekki þá skulum við a.m.k., fjandinn hafi það, sameinast um að öryrkjar fái eingreiðslu nú í desember skatta- og skerðingarlaust eins og í fyrra. Það er það allra, allra minnsta sem við getum gert.

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir þingmenn um að nota ekki blótsyrði í ræðustól.)