152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég finn mig knúna til að koma hingað upp til að fara aðeins yfir forsetaúrskurði. Hér er um að ræða þrjá úrskurði sem byggja hver á öðrum í tiltekinni röð, þ.e. um skiptingu Stjórnarráðsins í ráðuneyti, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta og að lokum um skiptingu starfa ráðherra. Hv. þingmaður tekur hér réttilega eftir því að í forsetaúrskurði frá 28. nóvember er talað um ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar. Í þessari tillögu er ekki villa þegar við tölum um ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar heldur var það niðurstaða okkar að eftir að málaflokkarnir höfðu verið fluttir. Nýr ráðherra hafði fengið tækifæri til að fara yfir sviðið og það var hennar tillaga að heitinu yrði breytt í ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Þetta er því ekki villa heldur tillaga. Þegar þessi tillaga verður tekin til afgreiðslu, eins og ég kom að hér áðan í örstuttu andsvari, verður forsetaúrskurðinum breytt til samræmis við samþykkt tillögunnar. Þetta vildi ég bara undirstrika til þess að hér væri ekki einhver leiður misskilningur á ferð.

Margt af því sem hv. þingmaður nefndi hér var áhugavert. Ég tók þó eftir því að hann nefndi sérstaklega að hann væri ekki á móti þeirri grunnhugsun að framkvæmdarvaldið skipti með sér verkum eins og það teldi best til að ná fram stefnumálum sínum. Hann hefði kosið að gera það öðruvísi. Það er fullkomlega eðlilegt. Ég vil þó gera þá athugasemd að út frá þeirri hugsun sem við höfum í okkar stjórnkerfi, þar sem forsætisráðherra fer með samhæfingu málefna milli ráðuneyta, þá stenst það ekki að fagráðherrar beri ábyrgð á samhæfingu til að mynda innleiðingar á einhverri stefnu sem fer þvers og kruss á ráðuneyti. Til þess er forsætisráðherrann. Það er hlutverk hans. Ég vildi bara koma því sjónarmiði hér að og þykist nú viss um að hv. þingmaður sé mér sammála um þá túlkun.