152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sköruglega ræðu sem var greinilega innblásin af því að hann starfaði einu sinni innan Stjórnarráðsins. Ég hef stundum talað um þessa hugmynd sem upp kom hjá ráðherrum og forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar að það er eins og þau hafi haldið að verkefnin væru öll á borði ráðherra og þess vegna væri hægt að útdeila þeim bara að vild. Það þyrfti kannski ekkert að huga að þeim fjölda sem starfar innan ráðuneytanna. Það hvíslaði að mér starfsmaður innan úr ráðuneytunum að líkast til yrði flutningur 200 af 700 starfsmönnum Stjórnarráðsins við þessar tilfærslur. Svona fljótt á litið sýnast mér breytingar, þar sem er verið að flytja málefni milli ráðuneyta, vera a.m.k. 14 og í mesta lagi 24 flutningar milli ráðuneyta, Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem hefur starfað í Stjórnarráðinu, í fjármálaráðuneytinu, eins og hann greindi frá sjálfur, hvaða áhrif slíkir flutningar geti haft á starfsemi innan ráðuneyta, starfsmannahópinn og yfirsýn og skilvirkni sem á sér stað á eins stórum vinnustað og hér um ræðir, mörg hundruð manna vinnustað.