152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[22:21]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Fjölgun aðstoðarmanna. Ég man eftir því að í ríkisstjórnartíð 2013–2016 var gert mjög mikið grín að því hvað voru margir aðstoðarmenn í forsætisráðuneytinu á þeim tíma og þá var hlegið hátt og innilega yfir því. En ég er ekkert endilega viss um að ráðherrar eigi að hafa færri aðstoðarmenn. Ég er ekkert endilega viss um það. Ég held að það skipti mjög miklu máli að ráðherrar séu með bestu mögulegu faglegu þekkingu. Það er kannski frekar spurning um hvaða fólk velst til starfans. Eru þetta eingöngu aðstoðarmenn sem hlaupa á eftir, svara smáskilaboðum og bera töskur eða er þetta sérfræðingur sem getur í rauninni stutt við ráðherrann sem ekki er sérfræðingur í þeim málum sem ráðuneytið fjallar um?