152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minntist á súrrealisma varðandi þessa þingsályktunartillögu. Ég vil taka fram að ég er algerlega ósammála hv. þingmanni hvað þetta varðar. Súrrealismi er ákveðin listsköpun undirmeðvitundarinnar. Ég tel að svo sé ekki. Ég tel að þetta sé dadaismi sem er meðvitaður rasjónalismi í listsköpun og ég tel að þetta sé alveg klárlega dadaismi en ekki súrrealismi. Þið þekkið pissuskálina á nútímalistasöfnum, hún er sett í hornið alltaf, það er dadaismi. Bara svo það sé á hreinu, það er mín skoðun og ég get alveg rökstutt hana fram eftir kvöldi eða nóttu.

En það sem mér finnst vera þarna undir og hv. þingmaður bendir svo skemmtilega á varðandi matvælaráðuneytið — og ég tek fram að í forsetaúrskurði frá 28. nóvember er ekki minnst á matvælaráðuneyti. Ég held að það sé sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að ráðuneyti hans verði matvælaráðuneyti, en það að skógar og skógrækt og landgræðsla séu ekki í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, það skil ég ekki. Það gæti vel verið að fólk eigi að fara að neyta skógar eða þess sem grær á landinu. En ég tel að þessir málaflokkar sýni dadaismann í þessu, að þeir skuli vera settir undir matvælaráðuneytið en ekki umhverfis- og loftslagsráðuneyti þegar skógar eiga klárlega heima þar, við þekkjum nú Amazon-skógana og hvað þeir geta gert fyrir loftslagið.

En mig langar að spyrja hv. þingmann af því að núna erum við þingmenn algjörlega ringlaðir og skiljum þetta ekki: Hvernig heldur hann að almenningur skilji þetta? Nú er talað um gagnsæja stjórnsýslu og það er mikilvægt að einstaklingar í samfélaginu sem ekki eru eins involveraðir í stjórnsýsluna og stjórnkerfið og við erum, geti séð stofnanirnar, þekki stofnanir samfélagsins. Ég get lofað ykkur því að almenningur mun ekki þekkja ráðuneytin og hvaða málefni eru undir hvaða ráðuneyti í ljósi þessara breytinga.