Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

staðan á landamærunum.

[15:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að gera sér grein fyrir hvað felst í því þegar ríkislögreglustjóri lýsir yfir hættustigi á landamærum. Það gerist vegna þess sem tekur við eftir að fólk er komið í gegnum landamærin, þ.e. hvernig unnið er með þá flóttamenn sem hingað eru að koma, hvernig úrræðin eru til skamms tíma og lengri tíma, sérstaklega í húsnæðismálum. Erfið staða er þar og því er lýst yfir hættustigi.

Varðandi það hvort landamærin séu of opin þá geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður sé að spyrja að því hvort móttökukerfi okkar fyrir flóttamenn sé of opið og frábrugðið því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Það er þannig. Það eru seglar í okkar lagaumhverfi sem gera það að verkum að vandinn er eins mikill og raun ber vitni hér, hlutfallslega sá langmesti ef horft er til nágrannaþjóða okkar í Evrópu. Frumvarp hefur verið lagt fram af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu á undanförnum árum sem ekki hefur fengið framgang hér í þinginu. Það hefur verið hugsað til þess að girða fyrir þessa stöðu, laga regluverk okkar betur að því sem gengur og gerist í öðrum löndum þannig að þessir seglar séu ekki eins virkir og raun ber vitni. Um þetta frumvarp er algjör samstaða í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og ég tel að þarna hafi verið ruglað saman, því að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem var í umræðuþætti um helgina gaf þetta svar frekar í tengslum við það hvort við ættum að opna hér fyrir fólki sem vill óska eftir dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Á þeim forsendum er Sjálfstæðisflokkurinn líka algerlega samstiga. Þar viljum við breyta leikreglum þannig að fólk geti komið hingað sem þarf að vinna og svara kalli atvinnulífsins um að greiða leið þeirra sem koma hingað, fá atvinnusamning við fyrirtæki og koma hér til þátttöku í íslensku samfélagi. Með flóttamannakerfinu í dag er það ekki svo. (Forseti hringir.) Verið er að misnota það. Það er verið að brjóta flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það stendur öllum opið sem á það vilja horfa með opnum augum.