154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur spurninguna. Síðasta verðbólgumæling var 8% og hækkaði þá um 0,4 prósentustig, raunar af þeim ástæðum sem skýrðar hafa verið, að þetta er ársverðbólga. Það er hins vegar áhyggjuefni að við sjáum t.d. verðlag á mat- og drykkjarvörum halda áfram að hækka, sem er sérstakt áhyggjuefni, tel ég vera. Það á við bæði um innlendar og innfluttar vörur og þar er greinilega, að ég tel, full ástæða til að skoða þessa þróun nánar.

Hv. þingmaður er fremur að horfa til þess hvað ríkisstjórnin hefur gert. Ég vil benda á að ríkisstjórnin hefur með sínum áætlunum verið að styðja mjög markvisst við Seðlabankann. Seðlabankinn tók þá mikilvægu ákvörðun í síðustu viku að hækka ekki vexti, þvert á spár flestra markaðsaðila, með þeim rökstuðningi að undirliggjandi verðbólga, þrátt fyrir nýjustu ársmælingu, hafi þrátt fyrir þetta hjaðnað og vísbendingar séu um að dregið hafi úr tíðni verðhækkana sem séu ekki á jafn breiðum grunni og áður. Samkvæmt nýjustu spá Seðlabankans eru verðbólguhorfur betri nú í vor og bankinn gerir ráð fyrir að það dragi meira úr verðbólgu á næstu mánuðum en hann gerði ráð fyrir í vor. Og það er í samræmi við mat annarra greiningaraðila.

Hv. þingmaður spyr hér um verðbólguna og ég segi: Það eru allar vísbendingar í kringum okkur um að verðbólgan fari nú niður á við og það skapist forsendur fyrir því að lækka vexti. Ég er sammála hv. þingmanni. Þær vaxtahækkanir sem ráðist hefur verið í eru svo sannarlega farnar að bíta og þær eru mjög íþyngjandi fyrir stóra hópa fólks. Þess vegna er mjög mikilvægt að verðbólgan gangi niður og þess vegna hefur ríkisstjórnin kynnt aðgerðir sem miða að því, ekki bara að afla aukinna tekna, t.d. með aukinni skattheimtu á fyrirtækin í landinu, með sértækri skattheimtu t.d. á ferðaþjónustu og fiskeldi, með aukinni gjaldtöku á samgöngur, heldur líka aðhald í ríkisrekstri, mikið aðhald í ríkisrekstri til að tryggja að ríkisfjármálin styðji við peningastefnuna. (Forseti hringir.) En horfurnar eru góðar og við munum sjá verðbólguna fara niður.