154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir mikilvæga umræðu hér í þinginu og hv. þingmanni fyrir að eiga frumkvæði að henni. Þetta er mjög stórt mál, það hvernig við nýtum eigur landsmanna sem best í þágu samfélagsins. Ég tel að við höfum mörg dæmi frá undanförnum áratugum um að við höfum gert vel í því að losa ríkið úr rekstri og eignarhaldi fyrirtækja sem ríkið þarf í sjálfu sér ekki að vera í og snúið því yfir í sóknarfæri fyrir fólkið í landinu.

Við þekkjum þessi dæmi frá undanförnum árum. Við höfum losað úr Íslandsbanka um 108 milljarða sem hafa þá gagnast annars staðar í opinberum fjármálum. Þessi tala getur verið sett í samhengi við byggingu nýs Landspítala, sem á tímabili gildandi fjármálaáætlunar jafngildir 120–130 milljörðum — sem sagt að losa um fjármálaeign til að byggja innviði í heilbrigðismálum. Þetta tel ég að sé góð ráðstöfun.

Enn er ríkið mjög stór eigandi fyrirtækja á fjármálamarkaði. Það má sjá fyrir sér að hægt væri að halda áfram á sömu leið, að losa t.d. um það sem eftir stendur af Íslandsbanka. Síðan er það auðvitað annað mál hvernig fer með framtíðareignarhald ríkisins í Landsbankanum í sama tilgangi.

Hv. þingmaður kemur hér inn á fjöldann allan af öðrum málum. Ég nefni þessi dæmi fyrst vegna þess að þetta eru auðvitað stærstu einstöku verðmætustu eignirnar sem eiga mögulega erindi inn í kauphöll og hægt er að skapa markað fyrir. Síðan eru nefnd dæmi um lönd og aðrar eignir sem ríkið ætti mögulega frekar að losa um. Ég get tekið undir það að ríkið hafi ekki verið nægilega góður eigandi í gegnum tíðina að ýmsum jörðum, löndum og jafnvel fasteignum. Við sáum það t.d. að þegar ákveðið var að ráðast í átak á heimsfaraldurstímanum, í miðju Covid, þá lögðum við talsverða vinnu í að kortleggja hvar væri helst viðhaldsþörf hjá hinu opinbera og við sáum að mjög mikið af eignum var í slæmu ásigkomulagi.

Hv. þingmaður nefnir sömuleiðis Íslandspóst. Það er hægt að segja um þann rekstur að hann hafi verið nokkuð stöðugur undanfarin ár og þetta er félag sem starfar á samkeppnismarkaði. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að vel gæti farið á því að ríkið tryggði að þeim verkefnum sem Íslandspóstur er að sinna væri komið fyrir með útboðsfyrirkomulagi. Þannig myndi ríkið fela aðilum sem vilja starfa á þessum markaði, eftir framkvæmd útboðs, að sjá til þess að þjónustan sé til staðar, t.d. alþjónustan um allt land. En að öðru leyti starfar fyrirtækið á samkeppnismarkaði og við ættum ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af því að þörf sé fyrir framtíðarhlutdeild Íslandspósts á því sviði.

Miklu stærra fyrirtæki var sömuleiðis nefnt í framsöguræðunni hér, Isavia. Það eru mörg fordæmi fyrir því, bæði á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu, að menn fái meðeigendur að slíkum fyrirtækjum. Við höfum ekki verið með það sérstaklega á dagskrá og almennt ekki sett sölu þessara ríkisfyrirtækja sérstaklega á dagskrá, eins og menn þekkja, en það eru fordæmi fyrir því. Ég tek undir með hv. þingmanni að það getur verið kostur fyrir ríkið að fá meðeigendur, t.d. að rekstrinum uppi á flugvelli. Það væri þá til þess hugsað að draga úr áhættu fyrir ríkið. Ég er alveg sannfærður um að það væri áhugi á því hjá erlendum fjárfestum að koma að málum, jafnvel þó að ríkið væri áfram meirihlutaeigandi að fyrirtækinu. Reyndar hafa margir lýst yfir áhuga á því að skoða möguleika á þessu. Þarna er um alveg gríðarlega háar fjárhæðir að ræða, bæði sem ríkið myndi þurfa þá óbeint að vera í áhættu fyrir vegna þeirrar miklu framkvæmdaþarfar sem er hjá félaginu til framtíðar en eins líka vegna rekstursins.

Ég hef lítið getað komið hér inn á samgöngumál en við eigum sérstök lög um samstarfsverkefni. Síðan höfum við verið að gera töluvert miklar breytingar á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu undir starfsemi ríkisaðila og ég held að enn séu tækifæri þar.

Í örstuttu máli, virðulegi forseti, hér í blálokin, þá er það mín sýn að við eigum áfram að leita leiða til að losa ríkið úr eignarhaldi og rekstri (Forseti hringir.) þar sem aðrir geta tekið við og nýta fjármunina betur til uppbyggingar innviða sem við ætlum sannarlega að eiga og reka vel til framtíðar.