154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á þær ræður sem fluttar hafa verið í þessari umræðu. Það dregur fram hversu ósammála stjórnarflokkarnir eru hvað varðar þessi málefni, þ.e. meðferð ríkiseigna og nýtingu þeirra. Mig langar aðeins að fara í aðra átt með þessa umræðu. Stóra myndin í þeim efnum er hversu vondur, hversu lélegur eigandi ríkissjóður getur verið þegar kemur að raunverulega verðmætum eignum. Við sjáum það víða. Ég ætla kannski að leyfa mér að gagnrýna hér sérstaklega þá ohf.-væðingu sem átti sér stað, ætli það séu ekki komin rétt um 15 ár síðan, þó að ég efist nú um að það sé raunverulega verið að ræða hér um það að selja nokkurt þeirra fyrirtækja. En manni finnst maður oft sjá tilhneigingu til þess að starfsmenn og stjórnir þeirra félaga hanteri þau dálítið eins og þau séu þeirra eigin eign.

Mig langar bara til að taka eitt lítið dæmi sem mér finnst oft vera hvað mest áberandi. Kannski er það af því að maður veitir því mesta athygli þegar maður fer þar um. En til að mynda Isavia, þar virðast áhugamál stjórnenda og starfsmanna vera í forgrunni á löngum stundum, frekar en það að reka flugstöðina með eins hagkvæmum og skilvirkum hætti og nokkur kostur er. Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það í ræðu sinni hér áðan að það kæmi til skoðunar að fá inn meðeiganda að Isavia, sem væri þá væntanlega sérhæfður fjárfestir í sambærilegum rekstri. Mig langar, ef hæstv. ráðherra gefur tækifæri til og hefur svigrúm til í seinni ræðu sinni, að velta því upp hvort það hafi eitthvað verið skoðað að hreinlega bjóða út reksturinn þannig að þá fengist inn með sama hætti sérfræðiþekking hvað varðar rekstur flugvalla. Ég hef lúmskan grun um að (Forseti hringir.) meðferð eigna ríkisins myndi ekki verða verri með því að þar kæmu inn (Forseti hringir.) rekstraraðilar sem væru að höndla með eigið rekstrarfé en ekki að slá sig til riddara á kostnað skattborgara.