154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:40]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Þegar rætt er um það hvaða ríkiseigur eigi að selja og hvernig ráðstafa eigi fjármunum er ágætt að hafa nokkrar tölur í huga, það skerpir aðeins á samhenginu. Vaxtagjöld ríkisins eru óheyrileg, 110 milljarðar kr. á næsta ári. Klúðrið vegna Íbúðalánasjóðs mun mögulega kosta ríkið um 200 milljarða kr. og útgjöld ríkisins hækkuðu um 130 milljarða á milli fjárlaga. Þetta eru svakalegar tölur. Íslenska ríkið greiðir hlutfallslega meira í vexti en flestar þjóðir í kringum okkur, jafnvel þótt mörg ríkjanna skuldi mun hærri fjárhæðir. Ástæðan fyrir lakari vaxtakjörum ríkisins er að sjálfsögðu gjaldmiðillinn. Hins vegar er afar brýnt að lækka skuldastöðuna til að koma í veg fyrir þessi svimandi háu vaxtagjöld.

Að mínu mati er afar mikilvægt að selja eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka og nota fjármunina til að greiða niður skuldir og eftir atvikum byggja upp innviði. Það er vissulega mikið vantraust í gangi gagnvart frekari eignasölu ríkisins vegna þess hversu mislagðar hendur ríkisstjórninni hafa verið við sölu á ríkiseigum en kannski væri hægt að efla traustið með því að koma því þannig fyrir að Sjálfstæðisflokknum yrði ekki treyst fyrir að hafa yfirumsjón með ferlinu heldur yrði því frekar komið yfir til hinna tveggja stjórnarflokkanna. Það er a.m.k. hugmynd sem vel þyrfti að ræða. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það séu engin sérstök rök fyrir því að ríkið haldi á eignarhlut sínum í Landsbankanum. Það sama ætti að gilda um hann og Íslandsbanka. Þetta er eign sem við eigum að selja á næstu árum og við eigum að nota fjármagnið til að grynnka á skuldum og efla innviði. Og þetta er algjört grundvallaratriði. Það gengur ekki að selja verðmætar eignir, fá fyrir það einskiptistekjur en nýta þær síðan í almennan rekstur ríkissjóðs. Ferlið við slíka sölu þarf að vera opið og gagnsætt. Lindarhvolsleiðin og leyndarhyggjan þarf að víkja til að landsmenn skilji og skynji að sanngirni og jafnræði skiptir mjög miklu máli, ekki síður en bara hæsta verð. Ríkisstjórn sem ber ekki virðingu fyrir því að hér þurfi að ríkja traust á fjármálamarkaði (Forseti hringir.) endar á því að verða sjálf rúin trausti. Sala ríkiseigna þarf að vera í þágu almennings en ekki útvalinna.