138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.

422. mál
[13:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Já, það er alveg hárrétt að ég er viss um að margt af fólkinu sem starfar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er bæði vant og vildi gjarnan frekar skrefa og fara með sauðfjárveikivarnalínum en að vinna að umsókn í Evrópusambandið. En það er nú svona, það verður stundum að gera fleira en gott þykir og það var ákveðið af meiri hluta Alþingis að þessi vinna færi fram. (Gripið fram í: Ríkisstjórninni.) Ég get þó alveg tekið undir að þeim fjármunum gæti að sjálfsögðu verið betur varið en þessi verk verður að vinna þangað til Alþingi hefur sagt annað í þeim efnum.

Varðandi sauðfjárveikivarnalínurnar er hárrétt að þetta er viðkvæmt mál og ég tek undir bæði áhyggjur og áherslur þingmanna hér í þeim efnum, að það þurfi að viðhalda þessum girðingum eins og nokkur kostur er þannig að hægt sé að standa vörð um heilbrigði sauðfjár í landinu og geta brugðist við þar sem kemur sýking og átt alveg sjúkdómsfrí hólf sem hægt er að sækja fé í.

Það er líka alveg hárrétt, og ég hef upplifað það í þessari umræðu, eins og hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir kom hér inn á, að ýmsum finnst skorta á samráð við samtök sauðfjárbænda, við sauðfjárbændur víða um land, þegar unnið var að tillögum um hvaða girðingar skyldi leggja niður og takmarka viðhald á. Þess vegna hefur Landssamband sauðfjárbænda komið að máli við mig og óskað eftir því að aftur verði farið í gegnum þessi mál og þau skoðuð og þau rædd, hvort þarna hafi eitthvað brugðið út af með áherslur eða hvort það þarna megi taka inn aðrar áherslur (Forseti hringir.) en starfshópurinn kvað á um.

Ég legg áherslu á mikilvægi samstarfs við alla þá aðila sem hlut eiga að máli og (Forseti hringir.) tek undir það með þingmönnum hversu mikilvægt er að standa vörð um að verja þetta hólf á Vestfjörðum sem hér hefur verið til umræðu.