138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

félagsleg áhrif kreppunnar á börn og unglinga.

212. mál
[13:56]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki tíma til þess í svari mínu að geta um þau góðu samstarfsverkefni sem við höfum verið að vinna með sveitarfélögunum sem hafa verið mjög mikilvæg og ég nefni sérstaklega Reykjavíkurborg sem við höfum verið í mjög nánu samstarfi við. Borgin stofnaði þegar í kjölfar hrunsins tvö teymi, annars vegar með börnum í borginni og hins vegar aðgerðateymi velferðarsviðs, bæði vakta stöðu barna og vinna að nýjum úrræðum. Við erum í mjög nánu samráði við borgina um þessi úrræði. Við höfum á vettvangi velferðarvaktarinnar mikið samráð við hin ráðuneytin um lausnir. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, að úrlausn skuldavanda skiptir miklu máli. Það skiptir miklu máli að við náum hratt viðsnúningi í því efni. Þess vegna komum við hér inn með frumvörp sem eiga að greiða fyrir mjög hraðri úrlausn skuldamála. Það er mjög mikilvægt að við náum góðum takti með bönkunum og eignarleigufyrirtækjum í því að létta ósjálfbærri skuldastöðu af fólki hratt — því fyrr getur fólk farið að horfast bjartsýnt í augu við framtíðina. Ekki stendur á okkur að skapa atvinnu í landinu, en það er nú þannig að þó kóngur vilji sigla er það byr sem ræður, og hann hefur ekki verið góður. Við höfum átt erfitt með að fá aðgang að lánsfé og að komast í samhengi við hið alþjóðlega fjármálaumhverfi af ástæðum sem eru okkur öllum kunnar.

Að síðustu nokkur orð um þetta merkilega átak, Ungt fólk til athafna. Það er með ólíkindum að sjá árangurinn af þessu átaki. Við erum búin að koma núna hátt í 100 ungmennum í iðnnám. Við höfum verið að þróa nýjar námsbrautir með skólum sem hafa verið mjög viljugir til að vinna með okkur, Menntaskólinn í Kópavogi, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti sérstaklega. Vorum að opna sérstakt nám í Grindavík í gær þar sem verið er að horfa til þess að kenna ungu fólki störf til sjós. Það er ótrúlegt að sjá hvað það er mikill sköpunarkraftur í (Forseti hringir.) skólakerfinu til að mæta þörfum þessa hóps og það er ánægjulegt að geta átt þátt í því að leysa þennan sköpunarkraft úr læðingi því að ástæða atvinnuleysis ungs fólks er (Forseti hringir.) líka sú að hingað til hefur skólakerfið ekki verið að mæta nógu fjölbreyttum þörfum. (Forseti hringir.) Ég held að þetta sé að kenna okkur að byggja á þessum árangri og vonandi tekst okkur að gera það áfram (Forseti hringir.) á næstu missirum.