139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2011.

739. mál
[16:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. ráðherra um að það var mjög mikilvægt á þeim tímum sem hann vitnaði til þegar þær tillögur lágu fyrir á Alþingi að Færeyingar yrðu reknir út úr lögsögunni að það var ekki gert. Sú vinátta sem þessar tvær þjóðir hafa sýnt hvorri annarri var síðan undirstrikuð í kjölfar efnahagshrunsins þegar Færeyingar sýndu það með miklum myndarbrag hversu mikilvæg vinaþjóð þeir eru.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í það sem hann kom inn á í lok ræðu sinnar þar sem Færeyingar hafa komið hingað í áratugi til haukalóðaveiða. Nú hefur verið rætt um það, reyndar líka á síðasta ári, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi látið að því liggja að hann muni banna haukalóðaveiðar alfarið í íslenskri lögsögu.

Af því að ég veit að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafa með sér sérstakt samstarf og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er búinn að upplýsa í þessum ræðustól að hann hafi eftirlit með hæstv. utanríkisráðherra, sérstaklega hvað varðar aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Getur hæstv. ráðherra upplýst mig um áform hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra; telur hann einhverja hættu á því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni banna haukalóðaveiðar hjá Íslendingum, sérstaklega í ljósi þess að við erum að fara að samþykkja þennan samning, þó svo að komið hafi fram í máli hæstv. ráðherra að þessi 40 tonn geti hugsanlega talist sem meðafli? Veit hæstv. ráðherra eitthvað um áform hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, af því að þau koma nú oft svona eins og þruma úr heiðskíru lofti?