144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

sameining framhaldsskóla.

[13:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á vegum hæstv. menntamálaráðherra stendur yfir leiftursókn gegn framhaldsskólum á landsbyggðinni. Þessi leiftursókn er í boði núverandi stjórnarmeirihluta sem stendur að baki hæstv. menntamálaráðherra í þessari leiftursókn.

Síðastliðið haust var skólameisturum sýnt í ráðuneytinu riss, Íslandskort þar sem búið var að rissa inn á með gulum, grænum, bleikum og bláum áherslupennum hvernig ráðuneytið ætlaði að vinna að sameiningu framhaldsskóla á landsbyggðinni. Það er mjög táknrænt að þetta var rissmynd.

13. maí sl. fóru fulltrúar menntamálaráðuneytisins norður í land og tilkynntu um þessi áform, að þau mundu taka gildi eftir mánuð og að sameinaðir framhaldsskólar mundu byrja í haust. Þessi leiftursókn hefur valdið miklu uppnámi og kvíða hjá foreldrum, kennurum, sveitarstjórnarmönnum og öðrum. Enginn undirbúningur, ekkert samráð hefur átt sér stað heldur tilkynning og tilskipun eins og gert var í Sovétríkjunum í gamla daga.

Sveitarfélög og stjórnmálafélög hafa brugðist við þessu. Við höfum fengið fjölmargar ályktanir frá sveitarstjórnum, sjálfstæðisfélög á Norðurlandi hafa ályktað, framsóknarfélög, jafnaðarmannafélög og fleiri.

Ég spyr hæstv. ráðherra út í þessi áform og hvernig í ósköpunum standi á þessum flausturslegu og klúðurslegu vinnubrögðum. Þess vegna er spurning mín til hæstv. ráðherra þessi: Ætlar hæstv. ráðherra að sameina einhverja framhaldsskóla fyrir upphaf næsta skólaárs?