144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég hef ekkert út á fundarstjórn forseta að setja. En ég ætla að leyfa mér undir þessum lið að taka undir þá ósk að hér fari fram sérstakar umræður um það ferli sem virðist vera í gangi um sameiningu skóla án þess að leggja skóla niður og svo það sem í ljós hefur komið með Iðnskólann í Hafnarfirði og það álit sem hér liggur fyrir. Ég er 3. þm. Suðvest. og tel mikilvægt að við séum upplýst um það í hvaða farveg þetta virðist vera komið og af hverju. Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, ég ætla mér reyndar ekki að nota orðið einelti gagnvart Hafnarfjarðarbæ, en það er hins vegar umhugsunarefni að ráðherrar í ríkisstjórn skuli ætla að flytja opinberar stofnanir úr sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Mér er jafn annt um Fiskistofu í Hafnarfirði og skólastarf í Hafnarfirði og landsbyggðinni er annt um að skólar starfi þar. Sem þingmaður kjördæmisins tek ég undir með þeim sem hér hafa talað (Forseti hringir.) að við fáum sérstaka umræðu með hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) um þessi mál.