150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[13:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að málið fari aftur til nefndar, á öðrum forsendum þó. Ég tel að ástæða sé til að það sé hafið yfir allan vafa og við tryggjum það í þessari löggjöf að fatlað fólk, sem hefur venjulega legið óbætt hjá garði og átt erfitt með aðgengi alls staðar, hafi aðgang að hleðslustöðvum sem á að setja upp í fjöleignarhúsum. Það er orðið tímabært og er eiginlega síðasta sort. Þegar við göngum nú fram með góðum hug til þess að reyna að koma til móts við þær kröfur sem gerðar eru um grænar lausnir og annað slíkt, þá er algerlega óásættanlegt ef við reynum ekki a.m.k. þá, á nýjum stað, nýjum tíma og í framtíð, að taka utan um þann þjóðfélagshóp sem við höfum hingað til í raun lítilsvirt á margan hátt hvað varðar aðgengi. Ég óska sannarlega eftir því að málið fari aftur inn í nefnd og að við tryggjum það í lögunum (Forseti hringir.) og setjum það ekki innan gæsalappa, með góðum vilja, eins og sagt er. Setjum fatlað fólk ekki innan gæsalappa meir og tryggjum því réttindi.