150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst sorglegt að heyra að hv. þingmaður setur alla áherslu sína á fyrirtækin, og ég finn það hjá öðrum stjórnarliðum, en ekki launamanninn. Þegar við lögðum af stað í þennan leiðangur var stærsta markmið okkar að viðhalda ráðningarsambandi milli launamanns og vinnuveitanda. Mér finnst miður að stjórnvöld og meiri hlutinn á þingi hafi ekki farið í að útfæra hlutabótaleiðina til hagsbóta fyrir launafólk heldur fari frekar í að reyna að bjarga fyrirtækjum og hjálpa þeim að segja upp fólki. Og mér finnst mjög skrýtið að ákveðin verkalýðsfélög séu einhvern veginn að ýta undir það. En það verður að hafa það.

Annað sem ég verð að spyrja hv. þingmann út í er að hann skuli furða sig á hugmyndum um að endurgreiða stuðninginn og hvernig fyrirtækin eigi nú að fara að því. Þá verð ég að benda hv. þingmanni á að í frumvarpi því sem hann styður hér ásamt meiri hlutanum er einmitt fjallað um hvernig (Forseti hringir.) fyrirtækin eiga að endurgreiða ásamt álagi til Vinnumálastofnunar, hafi þau ekki uppfyllt skilyrði (Forseti hringir.) eða einhverja aðra hluti. Endurgreiðsluhugmyndin er því ekki komið frá minni hlutanum heldur úr frumvarpinu sjálfu.