150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:24]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég er búinn að sitja hérna síðan kl. fjögur í dag og hlusta á kollega mína í velferðarnefnd fara yfir þetta mál sem við erum búin að fjalla um mjög lengi. Það er afar mikilvægt að hlutabótaleiðin hafi verið farin í upphafi og nú er verið að bæta hana aðeins. Það er alveg klárt að við munum ekki komast að hinum eina sannleika í þessum lögum frekar en í fyrri lögum sem við höfum sett. Mér finnst vera of mikið úr því gert að það séu margir að svindla og fara illa með þessa leið. Ég minni á að 6.400 fyrirtæki hafa nýtt sér hlutabótaleiðina og þau eru örfá sem hafa verið sökuð um að hafa ekki átt erindi í hana. Að meginhluta hefur það tekist vel.

Ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvernig atvinnulífið kemur út úr þeim hörmungum sem við erum að ganga í gegnum. Í svona ástandi þar sem fótunum er nánast kippt undan okkur, atvinnulífinu og heimilunum, eigum við ekki að setjast í þá stöðu að egna heimilunum gegn atvinnulífinu eða öfugt. Þau geta aldrei án hvor annars verið. Við þurfum að vinna að því að skapa sátt um þær aðgerðir sem við stöndum fyrir. Meiri hlutinn er að ná sátt um þær aðgerðir sem hér eru lagðar til og við erum að reyna að ná sátt við minni hlutann um þær aðgerðir. Auðvitað næst það ekki í öllum tilfellum, en allir eru að gera sitt besta.

Fram undan eru tímar sem við spáum mikið í hvernig fari hjá okkur, hvaða störf skapist á næstunni og hvernig ástandið verður þegar þessi leið rennur sitt skeið í lok ágústmánaðar. Hingað hafa komið 2,5 milljónir farþega á ári en við sjáum nú tölur sem eru óralangt frá því. Þá er slíkt umframframboð á þjónustu og afþreyingu, hótelherbergjum og flugferðum að eitthvað mun undan láta. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að reyna að ná saman í þessum málum eins og hægt er.

Oft er talað um að gerð séu mistök og ég hef heyrt það hér í dag að það séu jafnvel engin viðbrögð við skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kunngerð var í gær. Þá hafði þetta lagafrumvarp verið í smíðum í margar vikur, alla vega marga daga. Mér finnst vera ákall um að hér séu öll viðbrögð alltaf fyrir hendi og krafa um að enginn geri mistök, á meðan við erum enn á siglingu og enn að henda út björgunarbátum til að halda atvinnulífinu í landinu gangandi.

Mér finnst þessi umræða komin á ákveðinn lokapunkt hvað mig varðar. Ég hef engu við það að bæta sem félagar mínir hafa sagt hér í dag. Hér hefur verið talað af mikilli þekkingu og reynslu og ég hef átt orðastað við þetta góða fólk í marga daga. Ég ætla að nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Vinnumálastofnunar, ráðuneytanna og þingsins fyrir að gera okkur mögulegt að keyra öll þessi mál í gegn. Vinnumálastofnun er að taka við 50.000 manns á launaskrá á nokkrum dögum og það er afrek sem gerist í svona hremmingum. Við þurfum að kunna að þakka fyrir og meta það.