150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[21:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður lýsir því að staðan sé þannig hjá stærstum hluta fyrirtækja að þau séu nálægt því að vera með 100% tekjufall. Það lítur þá út fyrir að þau fyrirtæki skoði að fara inn í þá leið sem er ríkisstuðningur á uppsagnarfresti. Þau geta þá nýtt til fulls starfskrafta á þeirri leið sem þau geta ekki í hlutabótaleiðinni. Launafólkið fær fullar greiðslur á uppsagnarfresti. Með því að koma með þennan stuðning, með frumvarpinu sem nú er í efnahags- og viðskiptanefnd, hafa þau fyrirtæki, sem annars væri hætta á að færu í gjaldþrot, með sömu afleiðingum, þ.e. geta hugsanlega ekki ráðið við að borga fullan uppsagnarfrest til síns fólks, viðnámstíma og viðkomandi launafólk fengi fullar greiðslur. Fyrirtæki hefðu möguleika á að halda áfram og hefðu möguleika á að spyrna sér upp af botninum með fólk í fullri vinnu næstu þrjá mánuði og hefðu möguleika á að eiga framtíð. Ég sé þetta þannig. Þess vegna var þessu skipt upp í þessar tvær leiðir Við vorum búin að fara í gegnum erfiðasta kaflann í upphafi og síðan tekur næsti fasi við í veruleikanum sem fyrirtæki og launafólk standa frammi fyrir á þessari stundu. En eins og ég hef nefnt áður er sem betur fer margt að fara í gang og 15.000 manns hafa skráð sig af hlutabótaleiðinni. Ég tel að stór hluti þess fólks hafi sem betur fer fengið atvinnu eða eigi rétt á atvinnuleysisbótum, sem því miður er líka veruleikinn fyrir marga.