151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:38]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála þessum sjónarmiðum, þ.e. um tækifærin sem við okkur blasa hér. Mér hefur fundist umræðan, kannski eðlilega sem stendur, vera dálítið í þeim hjólförum að tala um að greinin þurfi við þær aðstæður sem eru núna sérstaklega á stuðningi að halda. Það er alveg rétt en í þeirri umræðu megum við ekki líta fram hjá því og ekki gleyma því að þegar aðstæður eru eðlilegar í greininni eru stjórnvöld að afla tekna sem eru taldar í milljörðum króna á ári hverju. Nú þegar við erum, einmitt í kjölfar heimsfaraldurs, að ræða það hér í þessum sal aftur og aftur að við þurfum á fjölbreyttari stoðum að halda í atvinnulífinu þá er það í mínum huga algerlega ótvírætt að ekki sé bara góður bragur á því heldur mikilvæg og skynsamleg fjárfesting að veðja dálítið markvisst á kvikmyndagerðina og á listgreinarnar, eins og rakið er í þeim rannsóknum sem við vorum að tala um áðan. Við eigum að horfa á það markvisst hvernig við getum stuðlað að því að fjölbreyttari greinar nái að festa hér rækilega rætur. Þá held ég að það skipti líka máli að líta til unga fólksins okkar. Við erum í þannig umhverfi í dag, í samkeppni um að skapa spennandi störf og að ungt fólk kjósi að velja sér búsetu áfram á Íslandi. Kvikmyndagerðin getur verið eitt af svörunum í þeim efnum.