151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[21:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér gott mál. Mig langaði að koma aðeins inn á hlutverk hins opinbera við kvikmyndagerð. Ég gríp hér niður í kafla í bók eftir Ágúst Einarsson sem kom út árið 2011 og varpar ákveðnu ljósi á ávinning þess að styrkja með einhverjum hætti kvikmyndagerð og þá sérstaklega til að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn. Ég vil þó byrja á því að segja að þessi texti ber þess kannski merki að vera skrifaður á höfuðborgarsvæðinu þegar ég kem að því að ræða um áhrif kvikmyndagerðar á landsbyggðinni.

Það er alls ekkert sjálfgefið að stjórnvöld styrki kvikmyndagerð, t.d. í Bandaríkjunum er enginn ríkisstyrkur eða opinber stuðningur við kvikmyndagerð. Þó eru allar vinsælustu kvikmyndir nútímans framleiddar þar. Í Evrópu er hins vegar mjög algengt að styrkja eða styðja við kvikmyndagerð og það er nánast regla. Hér á landi erum við með fjárframlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og svo, eins og við ræðum um hér, endurgreiðslu á kostnaði við kvikmyndagerð. Það er hægt að styðja við kvikmyndagerð og það eru ýmis rök sem hníga að því. Það er talað um að hægt sé að skipta þessu upp í sjö flokka, röksemdum fyrir því að stjórnvöld eigi að styðja við kvikmyndagerð. Það er hagfræði, menning, atvinna, byggðamál, menntun, landafræði og ríkisfjármál. Það er býsna víðfeðmur ávinningur af því að standa vel að kvikmyndagerð og stuðningi við hana, sérstaklega þegar við ræðum þennan nýja vaxtarsprota, að erlend kvikmyndafyrirtæki komi til landsins til að taka upp kvikmyndir. Það hefur gríðarleg áhrif á atvinnulífið og það sem gerist er að áhrifin margfaldast á önnur störf, afleidd störf í samfélaginu, og þannig kvikmyndir hafa meiri áhrif en þær sem aðeins hafa bein útgjöld, ef við getum orðað það þannig.

Það er tekið fram í þessum bókarkafla að kvikmyndagerð geti verið mikilvægur þáttur í byggðastefnu og mér finnst það dálítið áhugavert sjónarmið, þ.e. að nýta hana sem tæki til að efla fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni. Við höfum auðvitað þá sérstöðu að Ísland er stórt og það er víða hægt að finna fallega staði og tækifæri til þess að standa vel að kvikmyndatöku á landsbyggðinni og kvikmyndir eru auðvitað mikilvægur þáttur í að efla landsbyggðina. Það má líka segja að störf sem tengjast kvikmyndaiðnaði eru ekki láglaunastörf. Þau krefjast þess vissulega að það séu langir vinnudagar á stuttum tíma en leiða af sér frekari áhrif inn í aðrar greinar og það leiðir líka til betri nýtingar á opinberum fjármunum. Það er líka þessi nýbreytnisvinkill sem liggur í þessu og ábati fyrir landsbyggðina. Það er sagt í þessum bókarkafla að nýting fjármuna sér þar lakari. Það er kannski það sem ég vil setja spurningarmerki við.

Það er mjög mikilvægt að við tölum um kvikmyndagerð sem atvinnugrein vegna þess að ég tel að hún sé orðin atvinnugrein. Ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag kvikmyndatónlist sem er tekin upp á Akureyri í menningarhúsinu Hofi og það er eitthvað sem skiptir gríðarlega miklu máli.